1. Forsíða
  2. Af hverju samræmd könnunarpróf?

Af hverju samræmd könnunarpróf?

Af hverju samræmd könnunarpróf?

Samkvæmt 39. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 skal mennta- og menningarmálaráðuneytið standa fyrir samræmdu námsmati í grunnskólum með því að leggja fyrir samræmd könnunarpróf. Í lögunum segir að leggja eigi fram samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði fyrir 4. og 7. bekk grunnskóla en nemendur í 9. bekk skuli þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku, stærðfræði og ensku. Nánari útfærslu á samræmdum könnunarprófum er hægt að sjá í reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla nr. 173/2017. Með útgáfu hennar hefur ráðherra menntamála ákveðið að samræmd könnunarpróf í 4. og 7. bekk fari fram að hausti (september) en prófin í 9. bekk fari fram að vori (mars). 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur falið Menntamálastofnun umsjón með gerð og framkvæmd samræmdra könnunarprófa eins og nánar er kveðið á um í fyrrgreindri reglugerð.  Í sömu reglugerð segir einnig að grunnskólum sé skylt að leggja prófin fyrir nemendur í 4., 7. og 9. bekk og fylgja fyrirmælum reglugerðarinnar um framkvæmd þeirra.

Með samræmdum könnunarprófum er átt við próf sem meta hæfni allra nemenda með sama hætti og við sambærilegar aðstæður. Tilgangur prófanna er að meta hvernig markmiðum aðalnámskrár hefur verið náð og veita endurgjöf til nemenda, foreldra, kennara, fræðsluyfirvalda. Með þessari endurgjöf er til dæmis hægt að fá upplýsingar um þekkingu og hæfni hvers nemanda, hvort breyta þurfi áherslum í námi, hvað þurfi að bæta og almennt hver séu gæði menntunar. Nemandi, foreldrar/forsjáraðilar og kennarar geta þannig notað niðurstöður prófsins til að ígrunda frekari áherslur í náminu í framhaldinu.

Samræmdu prófin eru rafræn og því eru þau alfarið tekin á tölvu á ákveðnum dögum í skóla nemandans. Álitið er að rafræn próf meti betur hæfni nemenda en hefðbundin pappírspróf og eins er talið að fyrirlögn og úrvinnsla sé einfaldari. Í framtíðinni er stefnt að því að gera prófin einstaklingsmiðuð, það er próf sem laga sig að getu nemandans.

Spurningar í prófunum (efnisatriði prófsins) eru búnar til af reyndum kennurum og sérfræðingum í prófagerð. Allar spurningar prófsins byggja því á námsefni og námsmarkmiðum sem eru tilgreind í aðalnámskrá. Aðalnámskrá leggur áherslu á kunnáttu, leikni og hæfni nemenda en ekki ákveðin afmörkuð efnisatriði. Þannig er ekki gefinn út sérstakur listi af atriðum heldur lögð fram fjölbreytt próf sem reyna á ólíka kunnáttu, leikni og hæfni. Rétt að taka fram að námshraði einstakra nemenda er breytilegur og hæfni mismunandi. Samræmd könnunarpróf taka mið af þessu og er efni þeirra því mjög fjölbreytt. Í þeim eru prófverkefni sem eiga að reyna á slaka jafnt sem sterka námsmenn.

Í lokin er rétt að taka fram að mat á hæfni og framförum nemenda er reglubundinn þáttur í skólastarfi, órjúfanlegur frá námi og kennslu. Eins og aðalnámskrá tilgreinir er megintilgangur námsmats að leiðbeina nemendum um námið og hvernig þeir geti náð markmiðum þess. Námsmatið í skólum fer fram með fjölbreyttum aðferðum, til dæmis má nefna munnleg verkefni, verkleg, skrifleg, myndræn, stuttar afmarkaðar æfingar, einstaklingsverkefni, hópverkefni, verkefnamöppu, rafræn verkefni, próf og fleira. Samræmd könnunarpróf eru lítill hluti af því heildarnámsmati sem fram fer í skólum og mikilvægt að nálgast prófin með því hugarfari.