Skilningsbókin er verkefnabók til útprentunar fyrir grunnskólanema þar sem verkefnin þjálfa skilning í lestri, stærðfræði og náttúrufræði. Við gerð þeirra er tekið mið af PISA-könnunum undanfarinna ára og nemendur þjálfaðir í að leysa verkefni í þeim anda.
- Markmiðið er að gera þá hæfari til að leysa fjölbreytt verkefni úr daglegu lífi.
- Enn fremur eru í bókinni verkefni í fjármálalæsi sem miða að því að þjálfa skilning á ýmiss konar tilboðum þannig að nemendur sjái hvað er hagkvæmast í raun.
- Upplýsingalæsi er mjög mikilvægt nútímamanninum til að vinna úr þeim upplýsingum sem berast í daglegu lífi. Það er ekki nóg að geta skilið lesinn texta því upplýsingar birtast einnig í töflum, kortum, línuritum, teikningum og annarri grafík sem fólk þarf að geta ráðið fram úr til að nýta sér þær.
- Með þessu námsefni má auka lesskilning nemenda með lestri á tiltölulega stuttum textum og textarýni. Í kjölfarið fylgja markvissar spurningar og verkefni sem þjálfa nemendur í að ráða í merkingu orða út frá samhengi í texta og kryfja meginefni hans til mergjar.