PISA 2018

PISA-könnunin verður lögð fyrir dagana 12. - 23. mars og 3. - 13. apríl 2018

Um verkefnið

PISA er umfangsmikil alþjóðleg langtímarannsókn á hæfni og getu 15 ára nemenda í lestri, náttúrufræði og stærðfræði. Sá aldur er valinn þar sem hann markar lok almennrar skólagöngu í flestum löndum. PISA er skammstöfun fyrir enska heiti rannsóknarinnar Programme for International Student Assessment og er hún á vegum OECD. Alls taka yfir 80 þjóðir þátt í rannsókninni, þar af 34 aðildarríki OECD.

Framkvæmd 2018
Könnunin er lögð fyrir á þriggja ára fresti með mismunandi áherslur hverju sinni. Í mars-apríl 2018 er könnunin lögð fyrir hér á landi í sjöunda sinn og allir skólar landsins með 10. bekk eru beðnir að taka þátt en dagsetning prófunar er ákveðin í samráði við hvern skóla. Aðaláhersla núna er á mat á lesskilningi en einnig er metið læsi á stærðfræði og náttúruvísindi. Hluti þátttökuþjóðanna tekur einnig þátt í mati á fjármálalæsi og á Global Competence en Ísland tekur ekki þátt í því. Eftir könnunina svara nemendur spurningalista þar sem spurt er um viðhorf þeirra til náms, um námsvenjur þeirra, athafnir utan skóla ásamt hefðbundnum spurningum um bakgrunn.

Svör nemenda í PISA eru ekki persónugreinanleg og ekki hægt að rekja svörin. Tilkynning um verkefnið hefur verið send Persónuvernd, nr. S8193.

Nánar má lesa um verkefnið á vef Menntamálastofnunar og á vef verkefnisins hjá OECD. Þar er m.a. hægt að skoða dæmi um spurningar, fá svör við algengum spurningum og skoða niðurstöður fyrri PISA kannana.

Listi yfir þátttökulönd í PISA 2018