Sögusagnir um PISA

Hér eru nokkrar sögusagnir um PISA. Stuðst var við útskýringar Andreas Schleicher, yfirmanns menntamála hjá Efnahags- og framfarastofnuninni OECD við svör. 

 

 • Þau ríki sem tróna á toppi PISA-listans standa sig vel vegna þess að þau láta ekki alla nemendur sína taka þátt.

  Svar: Öll úrtök PISA eru fullkomlega dæmigerð fyrir þá fimmtán ára unglinga sem eru skráðir í skóla og eru úrtökin valin á vísindalegum grundvelli til þess að tryggja að þau sýni jafnt þversnið allra nemenda. 

 • Þetta snýst allt um mjög afmarkaðan menningarheim.

  Svar: Niðurstöður PISA-könnunarinnar í gegnum árin sýna að fjöldi ríkja gat eflt frammistöðu sína án þess að valda neinum breytingum á þjóðmenningu sinni. Milli áranna 2000 og 2012 bætti fjöldi menntakerfa stöðu nemenda sinna um meira en sem nemur einu skólaári. Þessi menntakerfi breyttu stefnum sínum og starfsháttum og sáu mikla aukningu í námsárangri.

 • Heimurinn skiptist í ríkar, vel menntaðar þjóðir og fátækar, illa menntaðar þjóðir.

  Svar: Minna en fjórðung frammistö- ðufrávika innan aðildaríkja OECD er hægt að skýra með vergri landsframleiðslu á mann. Með öðrum orðum eru nokkur lönd sem ekki teljast rík sem bjóða upp á frábæra menntun og nokkur lönd sem teljast rík sem koma ekki vel út í PISA-könnuninni. Það sem læra má af þessu er að peningar duga aðeins upp að vissu marki þegar kemur að því að skara fram úr í menntamálum, margir aðrir mikilvægir þættir koma þar að líka. 

 • Skortur er óumflýjanlegt hlutskipti.

  Svar: PISA sýnir skýrt og greinilega að fátækt er ekki óumflýjanlegt hlutskipti og að menntun og opinber stefnumál geta skipt sköpum fyrir nemendur sem búa við bág kjör. Í PISA-könnuninni árið 2012 náðu verst settu 10% nemenda í Sjanghæ svipuðum árangri í stærðfræði og þau 10% nemenda sem mestra forréttinda nutu í Bandaríkjunum. Niðurstöður úr PISA benda til þess að í jafnvel erfiðustu aðstæðum sé mögulegt að bjóða upp á framúrskarandi menntun, að laða hæfileikaríkustu kennarana að erfiðustu bekkjunum og að tryggja það að hver einasti nemandi njóti góðs af frábæru námi. 

 • Yfirburðir og jöfnuður eiga ekki samleið.

  Svar: Niðurstöður úr PISA sýna að gæði menntunar og sanngirni gagnvart nemendum eru samrýmanleg stefnumarkmið. Í niðurstöðum PISA-könnunarinnar frá 2012 sést að það eru menntakerfi í Asíu, Evrópu og Norður-Ameríku sem sýna bæði góðan námsárangur og jöfnuð í námsárangri. 

 • Yfirburðir krefjast þess að valið sé úr.

  Svar: Þau menntakerfi sem best standa sig eru í raun þau sem flokka ekki nemendur heldur bjóða upp á svipuð tækifæri fyrir alla. 

 • Gæði menntunar og menntun sem sniðin er að þörfum hvers og eins er háð bekkjastærð.

  Svar: Þau menntakerfi sem best standa sig taka gæði kennara fram yfir stærð bekkja. Þegar valið stendur á milli betri kennara og smærri bekkja verður gæðakennsla alltaf ofan á.