1. Forsíða
 2. Próf og mat
 3. Læsisverkefni
 4. Lesferill
 5. Spurt og svarað um Lesferil

Spurt og svarað um Lesferil

 • Af hverju fer nemanda/nemendum svona mikið aftur frá maí?

  Rannsóknir sýna að nemendum fer aftur í sumarfríinu, óháð aldri. Þeir geta tapað allt að þriggja mánaða færni yfir sumartímann. Flestir eru búnir að ná upp sömu færni og í lok fyrra skólaárs í október/nóvember og munu því sýna framfarir á janúarprófi.

   

 • Hvaða margfeldistuðull er notaður til að reikna út atkvæði á mínútu?

  Gögnin í Skólagáttinni eru vegin orð á mínútu og enginn margfeldistuðull notaður.

 • Hvað eru vegin orð á mínútu?

  Varðandi niðurstöðurnar úr Skólagáttinni þá eru það vegin orð á mínútu en talning á blaði er hrágögn/prófúrlausn. Skólagátt sýnir vegin orð á mínútu, þ.e. þegar kennari hefur skráð orðafjölda (hrágögn/prófúrlausn) nemanda í lestri þá umreiknar Skólagátt orðafjöldann og út kemur tala sem er vegin orð á mínútu. Þessi tala getur verið hærri eða lægri en hrágögnin/prófúrlausnin.

 • Hvaða niðurstöður er hægt að sjá í Skólagáttinni?

  Skólastjórnendur fá yfirlit yfir niðurstöður allra bekkja skólans. Kennarar og skólastjórnendur geta þannig séð stöðu og framfarir nemenda þrisvar sinnum yfir skólaárið. Með því að byggja á ítarlegum upplýsingum um stöðu bekkja og hvers nemanda geta skólastjórnendur, kennarar og skólar mótað áherslur í lestrarkennslu og komið betur til móts við þarfir nemenda. Einnig er hægt að prenta út einkunnarblað með niðurstöðum úr mati á lesfimi fyrir hvern nemanda.

 • Er möguleiki að sjá niðurstöður einstakra nemenda?

  Það er hægt að sjá niðurstöður einstakra nemenda og framfarir þeirra.  Einnig er hægt að prenta út einkunnarblað með niðurstöðum úr mati á lesfimi fyrir hvern nemanda.

 • Hvað er lesfimi?

  Lesfimi er færni sem byggir á lestrarnákvæmni, leshraða (sjálfvirkni) og hrynrænum þáttum tungumálsins en allir þessir þættir stuðla að auknum lesskilningi. Í lesfimiprófum Menntamálastofnunar eru metnir tveir fyrstnefndu þættirnir þ.e. lestrarnákvæmni og leshraði. Kennarar eru einnig hvattir til að huga að hrynrænum þáttum í lestri nemenda (sjá umfjöllun um mat hrynrænna þátta á skráningarblöðum kennara) en það mat kemur ekki beint inn í lesfimieinkunn nemandans. Hins vegar er mat á lestrarnákvæmni innbyggt í lesfimieinkunn nemenda sem birtist í Skólagáttinni.

 • Hvaða fræði liggja að baki villutalningu í lestrarnákvæmninni?

  Villuleiðréttingin var gerð eftir athugun á dreifingu á villum í lestri nemenda. Þessi mæling heldur bæði utan um leshraða og nákvæmni í lestri. Vægið á hvoru fyrir sig liggur ekki fyrir í eðli mælingarinnar heldur verður að ákveða það við þróun á prófi. Prófinu er ætlað að gefa vísbendingu um hvernig nemendur lesa almennt, frekar en að vera keppni í því að lesa sem hraðast. Þess vegna var m.a. horft til þess að ef nemendur leggja of mikla áherslu á hraða í lestri þá dregur alla jafna úr nákvæmni. Í því skyni var dreifing á villum skoðuð og fundið vægi sem tók á því.

  Mjög margir nemendur gera eina til tvær villur í textunum. Að mestu óháð því hve mörg orð þeir lesa. Meginþorri nemenda er svo með innan við tíu villur. Í ljósi þess að lesfimi metur bæði leshraða og nákvæmni (hrynræn áferð er ekki inni í þessari beinu mælingu) var ákveðið að auka vægi á nákvæmninni eftir því sem villum fjölgaði og áðurnefnd viðmið notuð. Nákvæmni er því metin þannig inn í niðurstöður lesfiminnar að það er stígandi í vægi á villum eftir því sem dregur úr nákvæmni.   

  Hér er dæmi um mun á tveimur nemendum sem taka sama lesfimiprófið, með og án villuleiðréttingu:

  • Nemandi A vandar sig og les 100 orð á tveimur mínútum og gerir tvær villur.
  • Nemandi B les hins vegar mjög hratt í gegnum textann, 130 orð á tveimur mínútum og fær 20 villur.

   

  Engin villuleiðrétting:

  • Nemandi A les 49 orð á mínútu en nemandi B les 55 orð á mínútu.

   

  Með villuleiðréttingu:

  • Nemandi A les 50 orð á mínútu en nemandi B les 51 orð á mínútu.

   

  Með villuleiðréttingu er dregið úr mun á þessum tveimur nemendum þar sem verið er að meta almenna lesfimi. 

 • Er möguleiki að skrá niðurstöður afturvirkt inn í Skólagáttina?

  Nei, það er ekki hægt.

 • Hversu lengi verður hægt að vinna úr niðurstöðum LTL (leið til læsis) gegnum síðuna ykkar?

  Lesskimun fyrir 1. bekk (LTL) er opin allan októbermánuð og þá er hægt að leggja hana fyrir og skrá inn niðurstöður sem verða aðgengilegar um leið og búið er að vista. Þú getur svo skoðað niðurstöðurnar áfram þó að lokað sé fyrir prófið.

 • Getið þið gefið mér upplýsingar um hvar hægt er að nálgast foreldralista lesskimunar í 1. bekk ,,Bakgrunnsupplýsingar vegna lestrarnáms"?

  Gátlisti - bakgrunnsupplýsingar vegna lestrarnáms

 • Hvenær og hve lengi er opið fyrir lesfimiprófin?

  Lesfimiprófin eru opin þrisvar sinnum á skólaönn, í mánuð í senn. Þau eru opin í september, janúar og maí. 

 • Eru stafsetningarpróf Lesferils tilbúin?

  Stafsetningarprófin eru enn í vinnslu.

 • Eru ritunarpróf Lesferils tilbúin?

  Ritunarprófin eru enn í vinnslu.

 • Hvar finn ég handbók lesfimiprófa?

  Handbókin er í vinnslu og mun verða aðgengileg á heimasíðu MMS.

 • Hvar finn ég leiðbeiningar um fyrirlögn lesfimiprófa?

  Leiðbeiningar um fyrirlögn lesfimiprófa er að finna á heimasíðu MMS undir: Próf og mat/Lesferill/Lessfimipróf.

 • Hvar finn ég upplýsingar um fræðilegan bakgrunn lesfimiprófanna?

  Fræðilegur bakgrunnur lesfimiprófanna er kynntur á heimasíðu MMS undir: Próf og mat/Lesferill/Fræðilegur bakgrunnur lesfimiprófanna.

 • Hvar finn ég leiðbeiningar varðandi notkun Skólagáttar?

  Allar leiðbeiningar sem varða notkun Skólagáttar er að finna á heimasíðu MMS undir: Próf og mat/Skólagáttin – leiðbeiningar.

 • Hvers vegna er nú talinn fjöldi orða á mínútu í hraðlestrarprófum, í stað atkvæða eins og áður var? Hver var ástæða þessara breytinga og hvaða kosti hefur hún umfram atkvæðatalningu?

  Ákveðið var að telja fjölda orða á mínútu í stað atkvæða til að auðvelda samanburð við önnur lönd. Einnig til að koma í veg fyrir mismunandi talningu villna (sumir töldu villur eftir atkvæðum en aðrir orðum). Skilgreining á lestrarnákvæmni er hlutfall rétt lesinna orða miðað við heildarfjölda lesinna orða en ekki atkvæða.

 • Eru einhverjar nýjar skimanir væntanlegar inn á Skólagáttina haustið 2018?

  Stafsetningarprófin eru í vinnslu og verða væntalega tilbúin til forprófunnar þetta skólaár. Hvað varðar önnur matstæki þá er Orðarún, Orðalykill og Lesmál nú þegar aðgengilegt inn á læstu svæði kennara á mms.is. Þessi próf eru núna hluti af Lesferli. Við gerum ráð fyrir að þessi matstæki verði hægt að leggja fyrir með rafrænum hætti á næstu misserum og verður það tilkynnt þegar það er tilbúið.