1. Forsíða
 2. Próf og mat
 3. Læsisverkefni
 4. Lesferill
 5. Spurt og svarað um lesfimipróf

Spurt og svarað um lesfimipróf

 • Hvernig ber að túlka niðurstöður lesfimiprófana?

  Í kjölfar niðurstaðna í lesfimi vakna oft spurningar um hvernig túlka beri niðurstöður hvers nemanda. Kennarar geta lent í erfiðleikum með að útskýra niðurstöður fyrir foreldrum þegar þær eru ekki í takt við væntingar. Hér eru tekin saman mikilvæg atriði sem geta hjálpað kennurum við að ræða niðurstöður lesfimiprófa.

  Hvað er lesfimi?

  Lesfimi er færni sem byggir á lestrarnákvæmni, leshraða og hrynrænum þáttum tungumálsins en allir þessir þættir eru meðal undirstöðuþátta fyrir lesskilning.  Nákvæmni felst í að nemendur lesi orð rétt, leshraði lýtur að sjálfvirkni í lestri, og hrynrænir þættir í áherslum og hrynjandi. Í lesfimiprófum Menntamálastofnunar eru metnir tveir fyrstnefndu þættirnir þ.e. lestrarnákvæmni og leshraði en matskvarði fyrir síðastnefnda þáttinn fylgir einnig. Kennarar eru einnig hvattir til að huga að hrynrænum þáttum í lestri nemenda (sjá umfjöllun um mat hrynrænna þátta á skráningarblöðum kennara) en það mat kemur ekki beint inn í lesfimieinkunn nemandans. Hins vegar er mat á lestrarnákvæmni innbyggt í lesfimieinkunn nemenda sem birtist í Skólagáttinni. Athugið að lesfimi er einn af þeim þáttum sem þarf til að ná góðri færni í lestri.

  Vandkvæði við mat á lesfimi

  Hugmyndin um lesfimi felur í sér að um sé að ræða færni sem er tiltölulega stöðug innan afmarkaðs tímabils, t.d. innan einnar viku eða mánaðar. Hún felur jafnframt í sér að leshraði sé jafn frá einni mínútu til annarrar þegar lesið er í lengri tíma, t.d. 10 mínútur eða hálftíma. Lesfimi eða leshraði er hinsvegar einungis einn hluti flókins ferlis þar sem ólíkir hæfniþættir spila saman í ferðalagi frá bókstöfum að skilningi. Í þessu ferli á sér stað samspil lesanda og texta, þar sem hæfniþættir sem liggja nær skilningshlutanum geta hægt eða flýtt fyrir hæfniþáttum sem liggja nær textanum eins og orðkennslum eða leshraða. Í þessu samspili lesanda og texta hefur uppbygging textans áhrif, það hvernig ný framvinda í atburðarás eða ný hugtök koma inn á móti jöfnu flæði eða frekari útlisting á því sem þegar hefur verið fjallað um kallar á mismikinn vinnslutíma hjá hæfniþáttum tengdum skilningi sem hafa áhrif á ferli eins og lesfimi eða leshraða.

  Þegar horft er á hugmyndina um leshraða sem jafnan frá einni stund til annarrar blasir við að leshraði er „jafnari“ milli lesturs í tíu mínútur en milli lesturs í eina eða tvær mínútur. Í styttri mælingum á lestri, t.d. ein eða tvær mínútur, getur þungur eða léttur kafli snemma í textanum, t.d. milli 25. og 50. orðs haft áhrif á mælingu á leshraða barns sem les 100 til 200 orð. Athugun á dreifingum á leshraða barna á textum sem skrifaðir voru fyrir lesfimipróf í Lesferli sýndi að áhrif af þyngd texta voru til staðar og ýtarleg greining á þyngd textanna staðfesti það. Því voru niðurstöður leshraðamælinga jafnaðar út þannig að jafnari stígandi væri í dreifingu leshraða á hverjum aldri og dreifingum hliðrað til þannig að stígandi væri milli bekkja. Leiðréttingin felur í sér að dreifingum er þjappað saman á sumum stöðum en teygt á þeim á öðrum stöðum með tilliti til stíganda á textanum sjálfum og samspili hans við niðurstöður árganga fyrir ofan og neðan. Síðarnefndu leiðréttingarnar eru einkum tengdar textum fyrir ákveðin ár, textar sem segja má að séu „þungir“ eða „léttir“ miðað við aldur barnanna. Breytingin í niðurstöður um lesinn orðafjölda sem áðurnefnd leiðrétting felur í sér er í sumum tilvikum talsverð og takmörk voru sett á það hve mikil hún væri, í sumum tilvikum var leiðréttingin hugsanlega of lítil. Með því að nota ólíka texta um mitt skólaár en við upphaf og lok skólaárs getur komið upp misræmi milli tímabila sem við áttum ekki kost á að huga að í upphafi.

  Hvað er átt við með framvindu?

  Framvindan vísar í hversu mikið nemandi bætir sig í lesfimi milli tveggja tímapunkta (er mismunur á milli tíma 2 og tíma 1?).  Flokkun á framvindunni byggir á dreifingu framvindu eftir aldri. Framvinda nemenda er meiri fyrstu árin og svo hægist á henni.
  Hafa ber í huga að framvindan segir ekkert til um hvort nemandi uppfylli lesviðmið eða ekki, heldur gefur hún vísbendingar um hvort framfarir nemanda séu í takt við framfarir jafnaldra í lesfimi. 

  Af hverju fer nemendum aftur í lesfimi?

  Nemendum getur farið aftur innan skólaárs ef þjálfun er ekki rétt sinnt. Meðan nemendur eru enn að ná fullum tökum á lesfimi er nauðsynlegt að þjálfun fari fram heima reglubundið yfir árið, helst í 10 til 20 mínútur hvern einasta dag. Lesfimi er færni sem er háð æfingu, rétt eins og til að mynda færni í hljóðfæraleik.

  Rannsóknir sýna að nemendum fer aftur í sumarfríinu, óháð aldri. Lestur, eins og önnur færni, er háð þjálfun.  Ef einstaklingur les ekkert í nokkurn tíma dregur það úr frammistöðu. Þetta er vel þekkt bæði í listum og íþróttum. Nemendur geta misst leshraða niður um það sem samsvarar allt að ávinningi þriggja mánaða æfinga yfir sumartímann. Flestir eru búnir að ná upp sömu færni og í lok fyrra skólaárs í október/nóvember og munu því sýna framfarir á janúarprófi.

  Hvernig reiknar Skólagáttin lesin orð á mínútu (vegin orð)?

  Skólagátt fær upplýsingar um fjölda orða sem barnið les og um fjölda af villum eða misfellum í lestrinum. Skólagátt finnur lesin orð á mínútu með því að leiðrétta fyrir villur. Síðan er birt niðurstaða sem tekur tillit til þyngdar texta eins og lýst var annars staðar.

  Hvaða fræði liggja að baki villutalningu í lestrarnákvæmni?

  Villuleiðréttingin var gerð eftir athugun á dreifingu á villum í lestri nemenda. Þessi mæling heldur bæði utan um leshraða og nákvæmni í lestri. Vægið á hvoru fyrir sig liggur ekki fyrir í eðli mælingarinnar heldur verður að ákveða það við þróun á prófi. Prófinu er ætlað að gefa vísbendingu um hvernig nemendur lesa almennt, frekar en að vera keppni í því að lesa sem hraðast. Þess vegna var m.a. horft til þess að ef nemendur leggja of mikla áherslu á hraða í lestri þá dregur alla jafna úr nákvæmni. Í því skyni var dreifing á villum skoðuð og fundið vægi sem tók á því.

  Mjög margir nemendur gera eina til tvær villur í textunum. Að mestu óháð því hve mörg orð þeir lesa. Meginþorri nemenda gerir innan við tíu villur í lestri á tveim mínútum. Í ljósi þess að lesfimi metur bæði leshraða og nákvæmni (hrynræn áferð er ekki inni í þessari beinu mælingu) var ákveðið að auka vægi á nákvæmninni eftir því sem villum fjölgaði og áðurnefnd viðmið notuð. Nákvæmni er því metin þannig inn í niðurstöður lesfiminnar að það er stígandi í vægi á villum eftir því sem dregur úr nákvæmni.

  Hver er munurinn á A og B útgáfu lesfimiprófanna?

  Þegar lesfimiprófin voru í undirbúningi þótti mikilvægt að þau birtust nemendum sem ólesinn texti. Þess vegna var ákveðið að vera með tvær útgáfur af prófi fyrir hvern árgang, eða A útgáfu í september, B útgáfu í janúar og svo aftur A útgáfu í maí. Þetta gerir úrvinnsluna og tengingu milli tímabila mjög flókna og erfiða, og skapar að mestu leyti þau vandamál sem upp eru að koma. Þetta fyrirkomulag þyrfti að endurskoða sem fyrst. Við sjáum að samræmi milli B prófs í janúar og A prófs í maí í 3. og 5. bekk er ekki nógu gott og ávinningur væri af því að vera með eina seríu af prófum frekar en tvær.

  Lesfimiprófin voru unnin í miklu samstarfi við skólasamfélagið en eins og fram hefur komið er sífellt verið að vinna að þróun prófanna og framsetningu á niðurstöðum. Við erum kennurum afar þakklát fyrir að hafa samband og benda á það sem betur má fara. Við munum halda áfram að lagfæra og bæta þetta vinnutæki í góðri samvinnu við skólasamfélagið.

 • Af hverju fer nemanda/nemendum svona mikið aftur frá maí?

  Nemendum getur farið aftur innan skólaárs ef þjálfun er ekki rétt sinnt. Meðan nemendur eru enn að ná fullum tökum á lesfimi er nauðsynlegt að þjálfun fari fram heima reglubundið yfir árið, helst í 10 til 20 mínútur hvern einasta dag. Lesfimi er færni sem er háð æfingu, rétt eins og til að mynda færni í hljóðfæraleik.

  Rannsóknir sýna að nemendum fer aftur í sumarfríinu, óháð aldri. Lestur, eins og önnur færni, er háð þjálfun.  Ef einstaklingur les ekkert í nokkurn tíma dregur það úr frammistöðu. Þetta er vel þekkt bæði í listum og íþróttum. Nemendur geta misst leshraða niður um það sem samsvarar allt að ávinningi þriggja mánaða æfinga yfir sumartímann. Flestir eru búnir að ná upp sömu færni og í lok fyrra skólaárs í október/nóvember og munu því sýna framfarir á janúarprófi.

 • Hvaða margfeldistuðull er notaður til að reikna út atkvæði á mínútu?

  Gögnin í Skólagáttinni eru vegin orð á mínútu og enginn margfeldistuðull notaður. 

 • Hvað eru vegin orð á mínútu?

  Varðandi niðurstöðurnar úr Skólagáttinni þá eru það vegin orð á mínútu en talning á blaði er hrágögn/prófúrlausn. Skólagátt sýnir vegin orð á mínútu, þ.e. þegar kennari hefur skráð orðafjölda (hrágögn/prófúrlausn) nemanda í lestri þá umreiknar Skólagátt orðafjöldann og út kemur tala sem er vegin orð á mínútu. Þessi tala getur verið hærri eða lægri en hrágögnin/prófúrlausnin.

 • Hvaða niðurstöður er hægt að sjá í Skólagáttinni?

  Skólastjórnendur fá yfirlit yfir niðurstöður allra bekkja skólans. Kennarar og skólastjórnendur geta þannig séð stöðu og framfarir nemenda þrisvar sinnum yfir skólaárið. Með því að byggja á ítarlegum upplýsingum um stöðu bekkja og hvers nemanda geta skólastjórnendur, kennarar og skólar mótað áherslur í lestrarkennslu og komið betur til móts við þarfir nemenda. Einnig er hægt að prenta út einkunnarblað með niðurstöðum úr mati á lesfimi fyrir hvern nemanda.

 • Er möguleiki að sjá niðurstöður einstakra nemenda?

  Það er hægt að sjá niðurstöður einstakra nemenda og framfarir þeirra.  Einnig er hægt að prenta út einkunnarblað með niðurstöðum úr mati á lesfimi fyrir hvern nemanda.

 • Hvað er lesfimi?

  Lesfimi er færni sem byggir á lestrarnákvæmni, leshraða (sjálfvirkni) og hrynrænum þáttum tungumálsins en allir þessir þættir stuðla að auknum lesskilningi. Í lesfimiprófum Menntamálastofnunar eru metnir tveir fyrstnefndu þættirnir þ.e. lestrarnákvæmni og leshraði. Kennarar eru einnig hvattir til að huga að hrynrænum þáttum í lestri nemenda (sjá umfjöllun um mat hrynrænna þátta á skráningarblöðum kennara) en það mat kemur ekki beint inn í lesfimieinkunn nemandans. Hins vegar er mat á lestrarnákvæmni innbyggt í lesfimieinkunn nemenda sem birtist í Skólagáttinni.

 • Hvaða fræði liggja að baki villutalningu í lestrarnákvæmninni?

  Villuleiðréttingin var gerð eftir athugun á dreifingu á villum í lestri nemenda. Þessi mæling heldur bæði utan um leshraða og nákvæmni í lestri. Vægið á hvoru fyrir sig liggur ekki fyrir í eðli mælingarinnar heldur verður að ákveða það við þróun á prófi. Prófinu er ætlað að gefa vísbendingu um hvernig nemendur lesa almennt, frekar en að vera keppni í því að lesa sem hraðast. Þess vegna var m.a. horft til þess að ef nemendur leggja of mikla áherslu á hraða í lestri þá dregur alla jafna úr nákvæmni. Í því skyni var dreifing á villum skoðuð og fundið vægi sem tók á því.

  Mjög margir nemendur gera eina til tvær villur í textunum. Að mestu óháð því hve mörg orð þeir lesa. Meginþorri nemenda er svo með innan við tíu villur. Í ljósi þess að lesfimi metur bæði leshraða og nákvæmni (hrynræn áferð er ekki inni í þessari beinu mælingu) var ákveðið að auka vægi á nákvæmninni eftir því sem villum fjölgaði og áðurnefnd viðmið notuð. Nákvæmni er því metin þannig inn í niðurstöður lesfiminnar að það er stígandi í vægi á villum eftir því sem dregur úr nákvæmni.   

  Hér er dæmi um mun á tveimur nemendum sem taka sama lesfimiprófið, með og án villuleiðréttingu:

  • Nemandi A vandar sig og les 100 orð á tveimur mínútum og gerir tvær villur.
  • Nemandi B les hins vegar mjög hratt í gegnum textann, 130 orð á tveimur mínútum og fær 20 villur.

   

  Engin villuleiðrétting:

  • Nemandi A les 49 orð á mínútu en nemandi B les 55 orð á mínútu.

   

  Með villuleiðréttingu:

  • Nemandi A les 50 orð á mínútu en nemandi B les 51 orð á mínútu.

   

  Með villuleiðréttingu er dregið úr mun á þessum tveimur nemendum þar sem verið er að meta almenna lesfimi. 

 • Er möguleiki að skrá niðurstöður afturvirkt inn í Skólagáttina?

  Nei, það er ekki hægt.

 • Hvenær og hve lengi er opið fyrir lesfimiprófin?

  Lesfimiprófin eru opin þrisvar sinnum á skólaönn, í mánuð í senn. Þau eru opin í september, janúar og maí. 

 • Hvar finn ég handbók lesfimiprófa?

  Handbókin er í vinnslu og mun verða aðgengileg á heimasíðu MMS.

 • Hvar finn ég leiðbeiningar um fyrirlögn lesfimiprófa?

  Leiðbeiningar um fyrirlögn lesfimiprófa er að finna á heimasíðu MMS undir: Próf og mat/Lesferill/Lessfimipróf.

 • Hvar finn ég upplýsingar um fræðilegan bakgrunn lesfimiprófanna?

  Fræðilegur bakgrunnur lesfimiprófanna er kynntur á heimasíðu MMS undir: Próf og mat/Lesferill/Fræðilegur bakgrunnur lesfimiprófanna.

 • Hvenær telst orð vera rangt lesið?

  Þar sem einn megintilgangur lesfimiprófanna er að meta lestrarnákvæmni teljast öll frávik frá texta vera villa.

  Dæmi um frávik:

  • Orð rangt lesið.
  • Hluti samsetts orðs rangt lesinn – allt orðið rangt.
  • Orðum víxlað.
  • Mislestur á smáorðum t.d. á/í, að/af.
  • Ákveðnum greini bætt við nafnorð (t.d. maður/maðurinn).
 • Hvernig skrái ég niðurstöður ef nemandi lýkur við að lesa lesfimiprófið innan tveggja mínútna?

  Hvernig skrái ég niðurstöður ef nemandinn lýkur við að lesa lesfimiprófið innan tveggja mínútna?

  Það er ekki algengt að nemendum takist að ljúka lesfimiprófi innan tveggja mínútna og Skólagáttin býður ekki upp á útreikninga eða skráningu í svona tilvikum. Segja má að nemendur, sem ná þessu, séu búnir að „sprengja skalann“ og aukinn raddlestrarhraði hefur mjög takmarkað notagildi fyrir þá. Þannig verða öll lesin orð, umfram það sem prófið mælir, í raun aukaatriði þrátt fyrir að nemandinn geti verið spenntur fyrir því að bæta sig í hraða. Þá er um að gera að velja sér aðrar áherslur í þjálfuninni eins og bætt lestrarlag eða góðan lesskilning ef nemandinn þarf á því að halda. 

 • Hver er munurinn á A og B útgáfu lesfimiprófanna?

  Þegar lesfimiprófin voru í undirbúningi þótti mikilvægt að þau birtust nemendum sem ólesinn texti. Þess vegna var ákveðið að vera með tvær útgáfur af prófi fyrir hvern árgang, eða A útgáfu í september, B útgáfu í janúar og svo aftur A útgáfu í maí. Þetta gerir úrvinnsluna og tengingu milli tímabila mjög flókna og erfiða, og skapar að mestu leyti þau vandamál sem upp eru að koma. Þetta fyrirkomulag þyrfti að endurskoða sem fyrst. Við sjáum að samræmi milli B prófs í janúar og A prófs í maí í 3. og 5. bekk er ekki nógu gott og ávinningur væri af því að vera með eina seríu af prófum frekar en tvær.

 • Á að leggja lesfimimat Lesferils fyrir alla nemendur?

  Stutta svarið er það að leggja á lesfimimatið fyrir alla nemendur sem til þess hafa forsendur en það eru langflestir nemendur. Einstaka eiga í töluverðum erfiðleikum með að ná tökum á lestri og fyrir þessa nemendur getur það reynst mikil raun að lesa texta sem er ætlaður meðalnemandanum. Í slíkum tilvikum er lagt til að notuð séu önnur úttalin lesfimipróf  til að meta framfarir (t.d. próf sem skólinn á eða Leið til læsis eftirfylgniprófin sem finna má á læstu svæði MMS). Velja ætti texta sem reynir hæfilega á nemandann og gefur góða mynd af stöðu hans í lesfimi. Textinn er lagður fyrir þrisvar yfir skólaárið en með því að leggja sama texta fyrir er hægt að meta framfarir hjá nemanda. Í kjölfarið geta þessir nemendur sett sér persónubundin, raunhæf markmið með aðstoð kennara.

  Niðurstöður úr öðrum prófum en stöðluðum lesfimiprófum Lesferils er ekki hægt að skrá í Skólagáttina eða gera samanburð við upplýsingar sem þar birtast svo sem viðmið og meðaltal bekkjar. Það er hins vegar auðvelt að útbúa yfirlit yfir feril nemandans í Excel enda skiptir það máli bæði fyrir nemandann og foreldra að frammistaða nemandans sé sett fram með hvetjandi en raunhæfum hætti. Ef íhlutun ber góðan árangur getur kennari svo metið hvort og hvenær nemandi er tilbúinn að reyna við lesfimimat Lesferils.

  Minnt er á að ef nemandi getur ekki leyst aldurssvarandi lesfimipróf geta stuðningsprófin (Lestur orðleysa og Sjónrænn orðaforði) veitt vísbendingar um veikleika í lestrarferlinu á öllum stigum lestrarnáms ef greining liggur ekki fyrir.

  Það er mjög mikilvægt að nemandi missi aldrei trú á eigin getu og viðhaldi jákvæðu hugarfari til íhlutunar og þjálfunar. Framfarir eru mjög einstaklingsbundnar en nemandi sem fær markvissa íhlutun og þjálfun er í stöðugri framför og hrósa þarf fyrir hvert lítið skref sem tekið er í rétta átt.