1. Forsíða
  2. Próf og mat
  3. Læsisverkefni
  4. Þjóðarsáttmáli um læsi

Þjóðarsáttmáli um læsi

Á haustdögum 2015 var undirritaður þjóðarsáttmáli um læsi og voru það fulltrúar allra 74 sveitarfélaga landsins, ásamt menntamálaráðherra og fulltrúum Heimilis og skóla, sem undirrituðu sáttmálann. Markmið þjóðarsáttmálans er að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns. Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun í kjölfar Hvítbókar um umbætur í menntun.

Við undirbúningsvinnu að Þjóðarsáttmálanum var höfð að leiðarljósi skilgreining á læsi frá The International Association for the Evaluation of Educational Achievement (IEA): „Læsi vísar til hæfninnar til að skilja og nota ritmál tungunnar í samræmi við kröfur samfélagsins og/eða óskir einstaklings. Í því felst að börn og ungmenni geti tileinkað sér ýmiss konar texta og lagt í hann merkingu. Þeir lesi til að læra, til að taka þátt í samfélagi lesenda í skóla og daglegu lífi og þeir lesi sér til ánægju.“

Ekki er litið á Þjóðarsáttmálann sem tímabundið átak heldur er markmiðið að leggja stöðugan grunn að umbótum í menntakerfinu þannig að allir nemendur njóti góðs af. Menntamálastofnun hefur yfirumsjón með verkefninu og hefur ráðið til starfa læsisteymi sem vinnur að innleiðingu aðgerða til eflingar læsis.