Um ytra mat leikskóla

Menntamálastofnun hefur umsjón með ytra mati á leikskólum fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Í ytra mati felst að utanaðkomandi aðili leggur mat á starfsemi viðkomandi skóla með hliðsjón af gildandi lögum, reglugerðum og aðalnámskrám. Er það meðal annars gert með því að skoða fyrirliggjandi gögn um starfsemi skóla, heimsóknum úttektaraðila og viðtölum við nemendur, starfsfólk skóla og foreldra. 

Í reglugerð um starfsemi leikskóla nr. 655/2009 segir að sérhver leikskóli skuli móta aðferðir til að meta uppeldisstarf, stjórnunarhætti og samskipti bæði innan leikskólans og utan. Mat skal gert með hliðsjón af lögum, ofangreindri reglugerð og aðalnámskrá leikskóla. Sérstaklega skal gera grein fyrir framkvæmd og niðurstöðum matsins.