Menntamálastofnun og liskennsludeild Listaháskóla Íslands skrifuðu undir samstarfsyfirlýsingu þann 15. október. Markmið samstarfsins er að efla þróun og rannsóknir á listmenntun í skólum með því að nýta sameiginlega sérfræðiþekkingu og gögn.
Kennurum listkennsludeildar og nemendum í framhaldsnámi verður þannig gert kleift að nýta sér í rannsóknar- og þróunarskyni gögn og þekkingu innan Menntamálastofnunar. Jafnframt fær Menntamálastofnun aðgang að sérfræðiþekkingu innan listkennsludeildar og stofnanirnar miðla þekkingu sín á milli.
Í upphafi verður áhersla lögð á samstarf um greiningu á hlut myndefnis í námsgögnum, myndlæsi og listalæsi og um þróun og útgáfu námsefnis tengdu lokaverkefnum nemenda.
Einnig kemur til greina að vinna að sameiginlegum verkefnum um þróun og innleiðingu námskrár í list- og verkgreinum á grunn- og framhaldsskólastigi samfara þróun námsmats í list- og verkgreinum.