1. Home
  2. Fyrirlögn samræmdra könnunarprófa gekk vel

Fyrirlögn samræmdra könnunarprófa gekk vel

Samræmdum könnunarprófum í 4. og 7. bekk er lokið. Um 4.450 nemendur í 4. bekk og 4.100 nemendur í 7. bekk þreyttu prófin. Framkvæmd prófanna gekk mjög vel og fá erindi bárust Menntamálastofnun, sem stýrði framkvæmdinni í samstarfi við 154 skóla um allt land. Þau mál sem komu upp voru leyst fljótt og farsællega.

Starfsfólk Menntamálastofnunar þakkar skólastjórnendum, kennurum, tæknimönnum og öðru starfsfólki skólanna fyrir gott samstarf.

Verklag við undirbúning og framkvæmd prófanna hefur verið endurskoðað og bætt. Auk tæknilegra breytinga var skólastjórnendum veitt aukið frelsi til að ákveða hvenær dags prófin hæfust, sem virðist hafa skapað meiri ró og dregið úr óöryggi nemenda við innskráningu og gagnvart próftökunni almennt. Eins voru viðbragðsáætlanir bættar og útbúinn gátlisti fyrir skóla fyrir undirbúning og framkvæmd prófanna, sem hefur mögulega skilað betri framkvæmd á fyrirlögninni. Þá var sett á laggirnar sérstök aðgerðarstjórn, til að veita skólum markvissa aðstoð á prófdögum.

Vinna er nú hafin við úrvinnslu prófanna og munu skólar fá niðurstöður nemenda innan fjögurra vikna.

skrifað 28. SEP. 2018.