1. Home
  2. Menntamálastofnun hefur hlotið jafnlaunavottun

Menntamálastofnun hefur hlotið jafnlaunavottun

Menntamálastofnun hlaut á dögunum jafnlaunavottun og starfrækir jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur ÍST 85:2012 staðalsins. Þá hefur Jafnréttisstofa veitt stofnuninni heimild til að nota jafnlaunamerkið. Vottunin nær yfir öll laun og öll kjör alls starfsfólks Menntamálastofnunar. 

Þar með er stofnunin komin í hóp rétt rúmlega tvö hundruð stofnana og fyrirtækja sem hlotið hafa vottun. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Með innleiðingu staðalsins hefur Menntamálastofnun komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun. Stefna Menntamálastofnunar er að allt starfsfólk, óháð kyni, njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar.

Jafnlaunastefna Menntamálastofnunar er hluti af jafnréttisáætlun og er hún einnig aðgengileg almenningi á vef Menntamálastofnunar.

Á myndinni má sjá Arnór Guðmundsson, forstjóra Menntamálstofnunar og Thelmu Clausen Þórðardóttur, mannauðsstjóra taka við vottunarskírteini úr hendi Birnu Dísar Eiðsdóttur vottunarstjóra frá Versa vottun.

 

 

 

skrifað 01. JúL. 2020.