1. Home
  2. PISA: Enska fyrirferðamikil í málnotkun og orðaforða ungra Íslendinga

PISA: Enska fyrirferðamikil í málnotkun og orðaforða ungra Íslendinga

Í nýrri könnun PISA er frammistaða íslenskra nemenda á sviði lesskilnings lökust meðal Norðurlandanna og fyrir neðan meðaltal OECD ríkja. Í því samhengi er fróðlegt að skoða hlut enskrar tungu í málnotkun og orðaforða ungra Íslendinga, líkt og gert er í grein Sigríðar Ólafsdóttur lektors og Baldurs Sigurðssonar dósents við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Í greininni kemur fram að íslenska er ekki eina tungumálið í málumhverfi íslenskra barna. Nýleg rannsókn (Birna Arnbjörnsdóttir, 2017) með stórum hópi íslenskra barna og fullorðinna bendir til mjög mikillar enskunotkunar í daglegu lífi. Því yngri sem þátttakendur í rannsókninni voru þeim mun líklegri voru þeir til að nota ensku í nokkrar klukkustundir á dag.

Hugsanlega nær orðaforði íslenskra ungmenna bæði yfir íslensku og ensku, þau kunna sum orð á báðum málum en önnur aðeins á öðru málinu, sem getur leitt til þess að aukning íslensks orðaforða þeirra verður hæg. Orðaforði eykst í viðkomandi málumhverfi og með lestri, hjá íslenskum ungmennum í íslensku og ensku.

Nauðsynlegt að hafa í huga við túlkun PISA frammistöðu
„Þessar breytingar í íslensku samfélagi er nauðsynlegt að hafa í huga þegar leitast er við að túlka neikvæða þróun í frammistöðu íslenskra unglinga á lesskilningshluta PISA frá árinu 2000 og allt til ársins 2018“, segir í grein Sigríðar og Baldurs. Greinina er að finna í skýrslu Menntamálastofnunar um niðurstöður PISA 2018 (bls. 38-61).

 

skrifað 03. DES. 2019.