1. Home
  2. PISA: Fæstar kennslustundir í náttúruvísindum hérlendis

PISA: Fæstar kennslustundir í náttúruvísindum hérlendis

Í nýrri PISA-könnun er frammistaða íslenskra nemenda á sviði læsis á náttúruvísindi lökust meðal Norðurlandanna og talsvert fyrir neðan meðaltal OECD ríkja. Í því sambandi er fróðlegt að bera saman fjölda kennslustunda í náttúruvísindum á Íslandi og í samanburðarlöndum.

Hérlendis skipa náttúruvísindin 8,1% af viðmiðunarstundaskrá unglingastigs grunnskóla. Sambærilegar tölur fyrir ríki sem við berum okkur saman við eru ýmist nokkru eða miklum mun hærri og athyglisvert er að bera þær saman við frammistöðuna í könnun PISA, líkt og sjá má í töflunni hér fyrir neðan. Taflan er úr grein Auðar Pálsdóttur við menntavísindasvið Háskóla Íslands í skýrslu Menntamálastofnunar um niðurstöður PISA 2018 (bls. 96-110).

      Hlutfall náttúrugreina af heildarkennslu og frammistaða í PISA

Land

Hlutfall náttúrugreina af heildarkennslu unglinga

Staða („sæti“) í PISA 2018 (OECD-lönd)

Eistland

21,3%

1

Finnland

16,5%

3

Danmörk

13,3%

20

Svíþjóð*

10,6%

14

Noregur

9,5%

22

Ísland

8,1%

29

* Í Svíþjóð eru tölur fyrir fyrsta ár framhaldsskólans inni í samtölunni

Sérstaka athygli vekur að Eistland, sem er með besta frammistöðu OECD-ríkja í læsi á náttúruvísindi í könnun PISA 2018, er með mun hærra hlutfall kennslu í náttúrugreinum en Norðurlöndin eða 21,3%. Næst þeim úr hópi Norðurlandanna er Finnland með 16,5% en í PISA er Finnland með þriðju bestu frammistöðuna í læsi á náttúruvísindi. Danmörk, Svíþjóð og Noregur eru öll með hærra hlutfall en Ísland í kennslu í náttúruvísindum og öll með betri frammistöðu á þessu sviði í PISA.

Auka verði hlutfall náttúrugreina hérlendis

Í grein sinni segir Auður m.a. að ef vilji sé til að bæta stöðu íslenskra unglinga í náttúrugreinum þurfi að auka hlutfall kennslutíma þeirra „að minnsta kosti svo hann standi á pari við það sem er að meðaltali á Norðurlöndunum.“

skrifað 03. DES. 2019.