1. Home
  2. RISAstórar smáSÖGUR 2020

RISAstórar smáSÖGUR 2020

Enn á ný er rafbókin RISAstórar smáSÖGUR komin út. Hún inniheldur sögur 20 barna sem sendu inn smásögu í ritunarsamkeppni á vef KrakkaRÚV. Rafbókin er hluti af verkefninu Sögur, sem KrakkaRÚV, Menntamálastofnun, Borgarbókasafn Reykjavíkur, List fyrir alla, Reykjavík bókmenntaborg UNESCO og skóla- og frístundasvið Reykjavíkur standa að.

Á Sögur – verðlaunahátíð barnanna sem fór fram í Borgarleikhúsinu í dag voru veitt verðlaun fyrir tvær smásögur og fengu eftirfarandi verðlaun:

•             „Drekaspor“ eftir Högna Frey Harðarson í flokknum Smásaga ársins í flokki 6 til 9 ára.

•             „Ég og díselvandinn“ (Titill: Ég og loftslagsvandinn) eftir Þorkel Kristin Þórðarson í flokki 10 til 12 ára.        

Við óskum höfundum til hamingju!

Á þessum tímamótum viljum við þakka Hjalta Halldórssyni, ritstjóra bókarinnar, Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur, sem teiknaði myndirnar og Ævari Þór Benediktssyni fyrir hvatningarorð í formála bókarinnar.

Gaman er að geta þess að systkinin Sigrún og Þórarinn Eldjárn fengu heiðursverðlaun hátíðarinnar fyrir framlag sitt til eflingar barnamenningar undanfarna áratugi á Íslandi. Óskum við þeim til hamingju og eru þau vel að þessum verðlaunum komin. 

Verkefnið Sögur fékk fyrir skömmu viðurkenningu og styrk frá Barnamenningarsjóði Íslands fyrir árið 2020. Um er að ræða samstarfsverkefni á vettvangi tónlistar, kvikmynda, ritlistar og sviðslista, ætlað til að lyfta verkum barna og sýna þeim hvað getur orðið úr hugmyndum þeirra. Einnig að hefja upp íslenskuna sem skapandi tungumál og styrkja börn í að nýta það á fjölbreyttan hátt, ásamt því að gefa börnum rödd og tækifæri til að velja það sem þeim finnst vel gert á sviði barnamenningar.

 

skrifað 04. JúN. 2020.