1. Home
  2. Samræmd könnunarpróf í 9. bekk hefjast í dag

Samræmd könnunarpróf í 9. bekk hefjast í dag

Næstu þrjá daga verða samræmd könnunarpróf verða lögð fyrir 9. bekkinga en það verða 4.303 nemendur sem þreyta prófin í 141 skóla. Er þetta annað árið sem prófin eru lögð fyrir rafrænt.

Menntamálastofnun hefur átt mikið og gott samstarf við skólana í undirbúningi prófanna og vonar að allir séu tilbúnir til að takast á við þetta verkefni.

Tilgangur prófanna er að meta hvernig markmiðum aðalnámskrár hefur verið náð og veita endurgjöf til nemenda, foreldra, kennara, fræðsluyfirvalda. Með þessari endurgjöf er til dæmis hægt að fá upplýsingar um þekkingu og hæfni hvers nemanda, hvort breyta þurfi áherslum í námi, hvað þurfi að bæta og almennt hver séu gæði menntunar. Nemandi, foreldrar/forráðamenn og kennarar geta þannig notað niðurstöður prófsins til að ígrunda frekari áherslur í náminu í framhaldinu.

Samræmdu prófin eru rafræn og því eru þau alfarið tekin á tölvu á ákveðnum dögum í skóla nemandans. Álitið er að rafræn próf meti betur hæfni nemenda en hefðbundin pappírspróf og eins er talið að fyrirlögn og úrvinnsla sé einfaldari.

Mat á hæfni og framförum nemenda er reglubundinn þáttur í skólastarfi, órjúfanlegur frá námi og kennslu. Námsmatið í skólum fer fram með fjölbreyttum aðferðum, til dæmis má nefna munnleg verkefni, verkleg, skrifleg, myndræn, stuttar afmarkaðar æfingar, einstaklingsverkefni, hópverkefni, verkefnamöppu, rafræn verkefni, próf og fleira. Samræmd könnunarpróf eru lítill hluti af því heildarnámsmati sem fram fer í skólum og mikilvægt að nálgast prófin með því hugarfari.

Prófdagana sjálfa munu um 10 starfsmenn vera á vaktinni frá kl. 7:15 og leysa þá hnökra sem geta möuglega komið upp. Þá verða fjórir starfsmenn í þjónustuveri sem taka við fyrirspurnum og ábendingum.

Gangi ykkur vel!

skrifað 07. MAR. 2018.