1. Home
  2. Samræmd könnunarpróf lögð fyrir í vikunni

Samræmd könnunarpróf lögð fyrir í vikunni

Undirbúningur fyrir samræmdu könnunarprófin hefur gengið vel og samstarfið við skóla verið til fyrirmyndar. Við höfum fengið skólastjóra í heimsókn til okkar, farið í heimsóknir í skóla til að spjalla við kennara og tölvuumsjónaraðila, erlendir sérfræðingar í prófakerfinu hafa heimsótt nokkra skóla og fleira.

Nú þegar styttist í samræmdu könnunarprófin viljum við minna á nokkur atriði:

Prófkóðar nemenda eru nú tilbúnir og aðgengilegir skólastjórnendum í Skólagátt. Töf varð á þessu þar sem kennitölur sem ekki standast villupróf (bráðabirgðakennitölur) komu í veg fyrir að hægt væri að lesa inn prófkóða fyrir árganginn.

Við mælum eindregið með því að starfsmenn skóla verði búnir að prenta út blöðin með prófkóðanum (stærð A4) og hafi þau tilbúin á prófdag (þetta er sér blað með prófkóða fyrir hvern nemanda og blað fyrir kennara með prófkóðum nemenda). Allir nemendur eiga prófkóða í Skólagátt (sjá leiðbeiningar). Athugið að ekki má opna prófkóða annars nemanda eða nota prófkóða hjá nemanda sem ekki tekur prófið. Stundum gerist það að nemendur slá prófkóðann rangt inn. Mikilvægt er að taka sér tíma í þetta og reyna aftur. Próftími byrjar ekki að telja fyrr en nemendur eru komnir inn í prófið sjálft.

Gott er að fara tímanlega yfir tæknileg atriði svo allt virki vel á prófdegi. Til dæmis tryggja að veflás sé tilbúinn á öllum tölvum, hljóðið stillt fyrir þá sem taka stuðningspróf og fleira. Hægt er að nota kynningarpróf fyrir kennara til að prufa hvort tölvur og veflás virki sem skyldi.

Ekki er ráðlagt að uppfæra stýrikerfi í tölvum / spjaldtölvum dagana fyrir próf. Uppfærslan getur haft þær afleiðingar að veflás virki ekki.

Athugið að prófið og ferlið er á íslensku nema innskráningarglugginn inn í prófakerfið (þar stendur Examinee Login og Test Code). Test Code er sama og prófkóði – þar á að slá inn prófkóðann.

Það skapar ákveðna ró að nemendur skrái sig inn þegar þeir eru tilbúnir og þá byrjar tími hvers nemanda að telja niður. Eins hafa skólar ákveðið svigrúm hvenær þeir byrja og ljúka prófum. Ef nemandi skráist óvart út úr prófi þá mun próftími stoppa þar (t.d. vegna rafmagnsleysis eða annars). Þegar nemandi skráir sig inn að nýju mun próftími halda áfram að telja þar sem viðkomandi var staddur áður. Prófakerfið vistar fyrri svör nemenda jafnóðum og hvar hann var staddur. Ef eitthvað kemur upp á er best að slökkva á tölvu – þá stoppar tíminn hjá viðkomandi nemanda. Athugið, nauðsynlegt er að endurræsa tölvur að loknu prófi áður en nýr próftaki hefur próf.

Í stærðfræðiprófinu er nemendum heimilt að nota vasareikni. Nemendur geta notað vasareikni sem er í prófakerfinu en mega líka nota eigin vasareikni. Nota má forritanlega vasareikna með því skilyrði að þeir séu endurræstir bæði fyrir og eftir próf (ekki má nota farsíma).
 
Hér er að finna allar upplýsingar um samræmdu könnunarprófin. Þar eru líka góðar leiðbeiningar um framkvæmd, kynningarpróf og slóðin á prófið sjálft.
 
Við hjá Menntamálastofnun verðum á fullri vakt næstu daga og byrjum klukkan 7:15 á prófdögunum sjálfum. Það koma kannski upp hnökrar en við munum saman leysa vel úr þeim. 

Síminn hjá Menntamálastofnun er: 514-7500.

 

skrifað 05. MAR. 2018.