Þann 6. nóvember gerðu Menntamálastofnun og Landvernd með sér samning um samstarf sem fól í sér skrif og útgáfu námsefnis í tengslum við matarsóun og þær samfélagslegu, náttúrufræðilegu og fjárhagslegu afleiðingar sem matarsóun hefur. Það voru þau Rannveig Magnúsdóttir, verkefnastjóri hjá Landvernd og Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar sem undirrituðu samstarfssamninginn.
Í námsefninu, sem ber heitið Saman gegn matarsóun, er fjallað um hvað nemendur og samfélagið í heild getur gert til að sporna við þeim fjölmörgu vandamálum sem fylgir matarsóun. Til að mynda segir á vef Landverndar að heildarmatarsóun á fjóra íbúa myndar jafn mikið af gróðurhúsalofttegundum og útblástur frá meðal bensínbíl á einu ári.
Námsefnið er ætlað nemendum á unglingstigi en hentar einnig fyrir miðstig. Landvernd hafði umsjón með innihaldi þess og efnistökum í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla. Það hefur nú verið gefið út sem rafbók og hýst á vef Menntamálastofnunar.