1. Home
  2. Sögur, verðlaunahátíð barnanna, er haldin í þriðja sinn á laugardaginn.

Sögur, verðlaunahátíð barnanna, er haldin í þriðja sinn á laugardaginn.

Bein útsending verður á RÚV frá verðlaunahátíð barnanna 6. júní klukkan 19:40. Hátíðin fer fram í Borgarleikhúsinu og þar verða veitt verðlaun fyrir það sem vel var gert á sviði barnamenningar á Íslandi síðastliðið ár.

Sögur verða þar í forgrunni, segir í fréttatilkynningu. „Enda eru þær allt í kringum okkur. Þær eru í tónlistinni sem við hlustum á, settar á svið á leiksviðum landsins, þær eru til sýninga í kvikmyndahúsum og í sjónvarpinu og að sjálfsögðu í bókum.“

Sögur fyrir og eftir krakka verða verðlaunaðar og krakkarnir sjálfir ráða ferðinni, því þeir kjósa það sem þeim fannst bera af á síðastliðnu ári.

Á hátíðinni koma fram Salka Sól, Króli, Valdimar, Ræningjarnir úr Kardemommubænum og fleiri.

Sögur hafa það að markmiði að veita verkum barna athygli og sýna börnum hvað getur orðið úr hugmyndum þeirra. Lögð er áhersla á íslensku sem skapandi tungumál og börn hvött til að nýta tungumálið á fjölbreyttan hátt. Þá er verkefninu ætlað til að hvetja börn til lesturs, skapandi skrifa og fjölbreyttrar sköpunar.

Menntamálastofnun, skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Bókmenntaborg UNESCO, RÚV, List fyrir alla og Borgarbókasafnið eru framkvæmdarstjórn verkefnisins. Auk þessara stofnana koma Borgarleikhúsið og Menningarfélag Akureyrar að samstarfinu.

 

skrifað 03. JúN. 2020.