1. Home
  2. Stórhættulega stafrófið

Stórhættulega stafrófið

RÚV, Ævar Þór Benediktsson og Bergrún Íris Sævarsdóttir, Menntamálastofnun og Málnefnd um íslenskt táknmál hafa komist að samkomulagi um gerð glænýrra sjónvarpsþátta um íslensku stafina og íslenska táknmálið. 

Stórhættulega stafrófið kom út síðastliðið haust, en í bókinni leitar Ævar nýrra og stórskemmtilegra leiða til að kynna íslenska stafrófið fyrir þeim sem eru að læra að lesa, eins og honum einum er lagið. Hér er þó ekki bara hefðbundin stafakennsla á ferðinni, heldur er spennandi og fyndinn söguþráður sem heldur öllu stafrófinu saman og fær lesandann til að vilja halda áfram og læra næsta staf.

Ævar mun koma til með að skrifa þættina og teikningar Bergrúnar munu skapa heim þeirra. Það verður spennandi að sjá Stafrófsstræti og Fjólu lifna við á skjánum.

Bæði íslensku stafrófin kennd samhliða. 

Fjóla, sem lesendur þekkja úr bókinni, mun eignast nýjan vin í þáttunum. Hann heitir Valgeir Stefán og er döff. Um leið og við lærum íslensku bókstafina lærum við íslenska táknmálið okkar. Þannig lærum við bæði íslensku stafrófin á sama tíma. Þetta hefur ekki verið gert í þáttagerð áður og því um algjöra nýsköpun að ræða.

Um viðamikið verkefni er að ræða. Þróun er nú þegar hafin svo landsmenn geta byrjað að láta sig hlakka til þó svo það þurfi nú að bíða örlítið eftir því að þættirnir verði tilbúnir.

 

skrifað 11. FEB. 2020.