1. Home
  2. Þjónusta
  3. Íslenski hæfniramminn um menntun
  4. Hvað er íslenski hæfniramminn um menntun?

Hvað er íslenski hæfniramminn um menntun?

Íslenski hæfniramminn um menntun lýsir hæfniviðmiðum sem kröfur eru gerðar við námslok á hverju skólastigi og í atvinnulífinu. Hann endurspeglar menntakerfi landsins og er skipt í 7 þrep en byggir jafnframt á Evrópska hæfnirammanum um menntun sem er 8 þrep og er ætlað að auka gagnsæi milli evrópskra menntakerfa, í þeim tilgangi að einstaklingar fái viðurkennda menntun og starfsréttindi milli landa.

Öll viðurkennd námslok á grunn-,framhalds- og háskólastigi hafa verið sett á þrep auk námskráa í framhaldsfræðslu sem fengið hafa vottun Menntamálastofnunar. Allar nýjar námskrár með skilgreindum námslokum þurfa að fara í gegnum vottunarferli hjá Menntamálastofnun sem staðfestir að námið uppfylli kröfur um skipulag, framsetningu hæfniviðmiða og námsmat. Í vottuninni felst jafnframt að viðkomandi nám hefur verið tengt við hæfniþrep í íslenska hæfnirammanum. Hvert þrep er byggt á skilgreindum og mælanlegum hæfniþáttum – þekkingu, leikni og hæfni.  Fyrir hvert þrep í rammanum hafa verið sett viðmið fyrir hvern hæfniþátt. 

Hver hæfniþáttur er skilgreindur með eftirfarandi hætti í aðalnámskrá framhaldsskóla:

  • Þekking er safn staðreynda, lögmála, kenninga og aðferða. Hún er bæði fræðileg og hagnýt og er aflað með því að t.d. lesa, hlusta á, ræða eða með upplifun og reynslu.
  • Leikni er bæði vitsmunaleg og verkleg. Hún felur í sér að geta beitt aðferðum, verklagi og rökréttri hugsun. Hennar er aflað með notkun á aðferðum og þjálfun í verklagi.
  • Hæfni felur í sér yfirsýn og getu til að hagnýta þekkingu og leikni. Hún gerir kröfur um ábyrgðartilfinningu, virðingu, víðsýni, sköpunarmátt, siðferðisvitund og skilning.

 

  • Þekking

    Þekking er safn staðreynda, lögmála, kenninga og aðferða. Hún er bæði fræðileg og hagnýt. Þekkingar er aflað með því að horfa, lesa, hlusta á, ræða eða með upplifun og reynslu í gegnum athafnir. Þekking er greind með því að ræða, flokka og bera saman. Þekkingu er miðlað með fjölbreyttum tjáningarformum svo sem munnlega, skriflega eða verklega.

  • Leikni

    Leikni er bæði vitsmunaleg og verkleg. Hún felur í sér að geta beitt aðferðum, verklagi og rökréttri hugsun. Leikni er aflað með notkun á aðferðum og þjálfun í verklagi. Leikni felur í sér greiningu með vali milli aðferða og skipulagi verkferla. Leikni er miðlað með því að beita vinnubrögðum, verkfærum og aðferðum mismunandi tjáningarforma.

  • Hæfni

    Hæfni felur í sér yfirsýn og getu til að hagnýta þekkingu og leikni. Hæfni gerir kröfur um ábyrgðartilfinningu, virðingu, víðsýni, sköpunarmátt, siðferðisvitund og skilning einstaklingsins á eigin getu. Einnig skiptir sjálfstraust og sjálfstæði í vinnubrögðum máli.  Hæfni felur í sér greiningu nemandans á eigin þekkingu og leikni með því að bera saman, finna samband, einfalda, draga ályktanir og rökstyðja. Hæfni til að greina byggist á gagnrýninni hugsun og faglegri ígrundun.  Hæfni er miðlað með margvíslegum tjáningarformum þar sem vitsmunalegri, listrænni og verklegri þekkingu og leikni er fléttað saman við siðferðilegt og samfélagslegt viðhorf einstaklingsins. Hæfni gerir kröfu um sköpunarmátt, ábyrgð og virkni.

Lýsing á þekkingu, leikni og hæfni á hæfniþrepum lýsa framvindu á milli þrepa og er hægt að greina stigvaxandi hæfnikröfur á milli þrepa 1-7. Dæmi um framvindu á milli þrepa er að á fyrsta þrepi getur einstaklingur unnið undir leiðsögn, á öðru þrepi getur einstaklingur skipulagt einfalt vinnuferli og á þriðja þrepi getur einstaklingur skipulagt vinnuferli. Annað lýsandi dæmi er að á þrepi 3 hefur einstaklingur sérhæfða þekkingu sem nýtist í starfi en á þrepi 4 hefur einstaklingur sérhæfða þekkingu sem nýtist við leiðsögn og stjórnun í starfi. Þá fer þekkingin frá því að vera sérhæfð í að vera fræðileg á milli þrepa 4 og 5.1.

Hér að neðan er að finna fleiri dæmi um það hvernig hæfniramminn endurspeglar stigvaxandi hæfnikröfur þar sem hækkandi þrep endurspegla auknar hæfnikröfur. Feitletruðu orðin eiga að vera lýsandi fyrir framvindu á milli þrepa:   

  • Dæmi 1

    1. þrep: Tjá sig á skýran, ábyrgan og skapandi hátt
    2. þrep: Tjá sig á skýran, ábyrgan og skapandi hátt um sérhæfða þekkingu sína og/eða starfsgrein
    3. þrep: Tjá sig á skýran, gagnrýninn og skapandi hátt um sérhæfða þekkingu sína og/eða starfsgrein
    4. þrep: Leiðbeina og miðla þekkingu sinni á skýran og skapandi hátt
  • Dæmi 2

    Leikni

    1. þrep: Vera verklega sjálfbjarga í daglegu lífi
    2. þrep: Skipuleggja einfalt vinnuferli starfsgreinar og/eða sérþekkingar og beita viðeigandi tækni í því sambandi
    3. þrep: Skipuleggja vinnuferli, beita viðeigandi tækni og aðferðum starfsgreinar og/ eða sérþekkingar á ábyrgan hátt
    4. þrep: Skipuleggja vinnuferli, beita viðeigandi tækni og þróa aðferðir starfsgreinar og/eða sérþekkingar á ábyrgan hátt
  • Dæmi 3

    Leikni

    1. þrep: Vinna á sjálfstæðan, ábyrgan og skapandi hátt undir leiðsögn
    2. þrep: Sýna frumkvæði og sjálfstæði í grunnvinnubrögðum sérþekkingar og/eða starfsgreinar
    3. þrep: Sýna frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum við að leita lausna innan sérþekkingar og/eða starfsgreinar
    4. þrep: Sýna frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum við að greina aðstæður og bregðast við á viðeigandi, raunhæfan og skapandi hátt.
  • Dæmi 4

    Hæfni

    1. þrep: Getur tengt þekkingu sína og leikni við daglegt líf, tækni og vísindi.
    2. þrep: Getur tengt þekkingu sína og leikni við starfsumhverfi og daglegt líf.
    3. þrep: Getur tengt þekkingu sína og leikni við tækni og vísindi.
    4. þrep: Getur tengt þekkingu sína og leikni við alþjóðlegt umhverfi.
  • Dæmi 5

    Hæfni

    1. þrep: Getur verið virkur og ábyrgur borgari í lýðræðislegu nær– og fjærsamfélagi,
    2. þrep: Hefur skýra sjálfsmynd og gerir sér grein fyrir nýjum tækifærum í umhverfinu
    3. þrep: Býr yfir hæfni til að meta eigið vinnuframlag
    4. þrep: Getur metið eigið vinnuframlag og annarra í tengslum við starfsumhverfi og/eða sérþekkingu á gagnrýninn og uppbyggilegan hátt
  • Dæmi 6

    Þekking

    1. þrep: Þekkingu á samfélagslegum gildum, siðgæði, mannréttindum og jafnrétti
    2. þrep: Þekkingu sem tengist því að vera ábyrgur þátttakandi í atvinnulífinu
    3. þrep: Þekkingu sem tengist því að vera virkur og ábyrgur borgari í samfélagi sérþekkingar og/eða starfsgreinar
    4. þrep: Sérhæfðri þekkingu sem nýtist til framgangs í starfi og/eða til undirbúnings fyrir frekara nám