Samræmd könnunarpróf eru hafin og framkvæmd þeirra gengur vel. Í dag þreyttu nemendur í 7. bekk próf í íslensku en munu fara í próf í stærðfræði á morgun. Nemendur í 4. bekk þreyta próf eftir viku eða dagana 26. og 27. september. Fjöldi þeirra sem þreyta prófin eru 4.300 nemendur í 7. bekk og 4.500 nemendur í 4. bekk.
Nemendur sem þreyta prófin koma úr 152 skólum. Fjöldinn dreifist þannig að í kringum 30% skóla eru með 10 eða færri nemendur í próftöku, tæp 60% skóla með 11 til 50 nemendur í próftöku og kringum 10% skóla með fleiri en 50 nemendur í próftöku.
Tilgangur samræmdra könnunarprófa er að athuga, eftir því sem kostur er, að hvaða marki hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla hefur verið náð, vera leiðbeinandi um áherslur í námi og veita upplýsingar um námsstöðu nemenda. Lögð er mikil áhersla á að prófin nýtist nemendum sjálfum og séu notuð sem grunnur að samtali um áherslur í námi.
Mikilvægt er að horfa á þetta sem könnunarpróf og afmarkaðan hluta af því námsmati sem fram fer í skólum landsins, enda er námsmat í skólum mjög fjölbreytt og könnunarprófin lítill hluti af heildarnámsmatinu. Meðaltími nemenda í prófinu í morgun var í kringum 45 mínútur en heildartími nemenda í könnunarprófum í íslensku, yfir alla skólagönguna, er í kringum þrjá tíma.
Menntamálastofnun þakkar nemendum og starfsfólki skóla fyrir gott samstarf við undirbúning og framkvæmd prófanna. Við hvetjum nemendur til að takast á við prófin af yfirvegun og gera sitt besta. Óskum nemendum góðs gengis næstu daga, sem og alla aðra skóladaga.