Leikritasmiðjan
Minnt er á Leikritasmiðjuna á vef Menntamálastofnunar sem inniheldur hátt í 20 leikrit fyrir öll skólastig grunnskólans. Flest eru leikritin byggð á þjóðsögum og ævintýrum og hafa margar persónur sem hentar vel í bekkjum. Tilvalið er að setja þau upp fyrir jól eða árshátíðir en einnig og ekki síður má nýta þau til samlestrar í bekk.
Ævintýrið um Sædísi skjaldböku
Í nóvember kom nýtt leikrit inn á Leikritasmiðjuna. Um er að ræða leikrit með 11 söngvum um skjaldböku sem festist í plasti og tilraunir vina hennar til bjargar. Öll lögin fylgja hljóðrituð og sungin af skólabörnum í Reykjavík við hljómsveitarundirleik. Þá er undirleikur hvers lags endurtekinn (án söngs) sem gefur almennum kennurum tækifæri til að nýta það sem undirspil. Einnig fylgja laglínur á nótum með bókstafshljómum. Því er hægt að setja leikritið upp með krökkunum en eins er upplagt að nýta það til samlestrar í bekkjum. Þá er hægt að láta börnin lesa textann, hlusta á lögin, jafnvel læra þau og syngja síðan við undirleik. Að lokum má undirstrika að þetta leikrit um Sædísi skjaldböku er þverfaglegt; umfjöllunarefnið tengist öðrum greinum svo sem náttúrufræði og umhverfismennt, fyrir utan íslensku og tónmennt.