Undanfarna daga hafa 87 grunnskólakennarar víðs vegar að af landinu setið námskeið á vegum Menntamálastofnunar. Námskeiðin eru fyrsti liðurinn í samstarfi þessara aðila sem snýr að forprófun nýs matstækis í ritun.
Með þátttöku sinni hafa kennarar skuldbundið sig til að veita mikilvæga endurgjöf á einstaka verkþætti og koma með tillögur sem bæta notkun rammans en hvort tveggja er mikilvægur liður í þróun matstækisins. Ritunarramminn, sem er vinnuheiti matstækisins, hefur verið í smíðum undanfarið ár og verður eitt af mörgum matstækjum undir hatti Lesferils en öll eru þessi matstæki valfrjáls fyrir skóla. Mikið ákall hefur verið eftir matstæki fyrir ritun í skólasamfélaginu og ber fjöldi áhugasamra forprófenda þessu vitni.
Læsisfræðingarnir Katrín Ósk Þráinsdóttir og Guðbjörg Rut Þórisdóttir hafa umsjón með gerð Ritunarrammans í samstarfi við aðra sérfræðinga Menntamálastofnunar. Baldur Sigurðsson dósent við HÍ og Rannveig Oddsdóttir lektor við HA hafa verið til ráðgjafar.