1. Forsíða
  2. 120% aukning á milli ára

120% aukning á milli ára

Umsóknum erlendra iðnaðarmanna um viðurkenningu á menntun og starfsreynslu til starfa í löggiltri iðn hér á landi fjölgaði um 120% milli áranna 2017 og 2018, úr 95 umsóknum í 210.  Alls voru 204 umsóknir samþykktar á tímabilinu, frá iðnaðarmönnum sem menntuðu sig 20 í iðngreinum í 27 löndum. 101 umsókn var hafnað.

Þessi mikla aukning milli ára skýrist að stórum hluta af 74% fjölgun rafvirkja sem fengu starfsréttindi sín viðurkennd og nærri þreföldun matreiðslumanna. Sumir þeirra fá þó aðeins afmarkaða viðurkenningu, ef starfsmenntun þeirra einskorðast við tiltekna tegund matargerðar (t.d. kínverska eða víetnamska). Flestir þeirra sem fengu viðurkenningu á sinni erlendu starfsmenntun höfðu numið í Póllandi en næstir koma iðnaðarmenn frá Bosníu, Kína, Víetnam og Grikklandi.

Menntamálastofnun annast viðurkenningu á menntun og starfsreynslu til starfa í löggiltri iðn hérlendis fyrir hönd stjórnvalda, í samstarfi við Iðuna – fræðslusetur og Rafmennt – fræðslusetur rafiðnaðarins. Umsækjendur þurfa að uppfylla tiltekin skilyrði, hafa lokið skilgreindu námi í sínu heimalandi og skal inntak námsins og lengd samsvara þeim kröfum sem gerðar eru hérlendis. Umsækjandi þarf einnig að sýna fram á næga starfsreynslu í umræddri grein. Viðurkenning á menntun og starfsreynslu til starfa í löggiltri iðn hér á landi er ákveðin samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 585/2011.

Eftir mikla fjölgun milli áranna 2017 og 2018 hefur á fyrstu mánuðum þessa árs dregið nokkuð úr umsóknum um íslenska viðurkenningu á erlendri starfsmenntun. Ekki hafa verið gerðar nákvæmar úttektir á sveiflum milli ára en vísbendingar eru um að fjöldi umsókna breytist í takt við slagkraftinn í efnahagslífinu.

skrifað 11. APR. 2019.