1. Forsíða
  2. Að kveikja neista og áhuga á ritlist og lestri

Að kveikja neista og áhuga á ritlist og lestri

„Mikilvægasti þáttur svona stuttra smiðja er valdefling barnanna. Að kveikja í þeim neista og áhuga á ritlist og lestri. Sýna þeim að þau geti skrifað, að þau hafi rödd og að á hana sé hlustað,“ segir Markús Már Efraím sem hélt utan um ritsmiðjur fyrir börn á aldrinum 8 til 12 ára. Smiðjurnar voru haldnar í fimm útibúum Borgarbókasafnsins í sumar í samstarfi við Menntamálastofnun og Velferðarsjóð barna.

Markús segir einnig að svona smiðjur geti líka rofið félagslega einangrun barna, sem passa ekki inn í sitt nærumhverfi. Á smiðjunum hafi börnin náð ótrúlega vel saman og töluðu þau um nýja vini sem þau hefðu eignast.

Fullt varð á flestar smiðjurnar en öllum var þó leyft að vera með. Í heildina voru 63 börn skráð og komu þau víða að. Sum bjuggu í nærumhverfi bókasafnanna en önnur komu jafnvel úr öðrum bæjarfélögum. Hver smiðja stóð yfir í þrjá daga, í þrjá tíma í senn.

Farið var yfir helstu atriði skapandi skrifa, eins og sögusvið, persónusköpun, andrúmsloft, umhverfislýsingar og uppbyggingu söguþráðar. Þetta var gert með fjölbreyttum æfingum, spjalli, sögutengingum og upplestri úr viðeigandi smásögum.

Börnin kláruðu öll texta, hvort sem það var smásaga, eða kafli úr stærra verki sem þau ætla að halda áfram með. Markús fór yfir texta hvers og eins þátttakanda og hjálpaði þeim að laga textann til og vinna áfram með hugmyndir. Á lokadegi hvers námskeiðs mættu foreldrar og aðrir fjölskyldumeðlimir til að hlusta á krakkana lesa upp verkin sín.

Menntamálastofnun þakkar Markúsi Má fyrir þetta flotta námskeið og hver veit nema barnabókahöfundar framtíðarinnar leynist meðal þátttekenda.

              

          

          

Foreldrar voru einnig mjög ánægðir með ritsmiðjurnar:

  • „Sonur minn var mjög ánægður með smiðjuna og kom glaður heim báða dagana. Hann var spenntur að sýna okkur afraksturinn og segja frá námskeiðinu. Það var augljóst að hann lærði leiðir til að skapa stemningu og gera sögupersónurnar dýpri.“
  • „Heilt yfir frábært námskeið. Dóttir mín, sem er venjulega alls ekkert of hrifin af lestri og skrift, fann sig fullkomlega á námskeiðinu.  Hún hlakkaði alltaf til að mæta og fékk nýja sýn á bækur, lestur og aukna færni í að skrifa sögur.  Bara allt jákvætt.  Mikið vildi eg að svona námskeið væri kennt í skólanum hennar og fyrir alla krakka.“
  • „[X] kom heim í skýjunum eftir þetta flotta námskeið. Söguna, sem hún skrifaði með þinni hjálp, kallaði hún sjálf eitt það flottasta sem hún hefur gert.“

 

skrifað 04. SEP. 2018.