1. Forsíða
  2. Aðgangur fyrirtækja að rafrænni ferilbók

Aðgangur fyrirtækja að rafrænni ferilbók

Um þessar mundir er verið að innleiða rafræna ferilbók í öllu starfsnámi og fer Menntamálastofnun með umsjón og ritstýringu hennar. Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra opnaði í gær svokallaða birtingaskrá. Birtingaskráin er listi yfir fyrirtæki, meistara og stofnanir sem uppfylla skilyrði um að taka nemendur í vinnustaðanám. Birtingaskráin er hluti af rafrænni ferilbók. 

Lengi hefur verið bent á nauðsyn þess að fjölga möguleikum til starfsnáms hér á landi, einfalda umsýslu þess og gera kerfið í kringum það skilvirkara með það að markmiði að halda betur utan um nemendur og veita faglegri þjónustu. Fyrirtæki og stofnanir birtast í framhaldinu í rafrænni ferilbók er tryggir skólum og nemendum greiðan aðgang að vinnustöðunum sem í boði eru. Markmið rafrænu ferilbókarinnar er að efla gæði vinnustaðanáms með því að mynda samskiptavettvang nemenda, vinnustaða, skóla og annarra sem koma að starfsnámi, um skilgreinda hæfniþætti þess starfs sem nemandinn lærir til. Ferilbók inniheldur lýsingu á verkþáttum og hæfni sem nemi þarf að búa yfir við lok starfsnáms. 

Þessi vinna hefur verið samvinnuverkefni atvinnulífs og skóla. Árangurinn er glæsilegur og vísar veginn inn í faglegri umgjörð vinnustaðanáms. Þessi samvinna gefur jafnframt fyrirheit um aukið samstarf skólanna og atvinnulífsins til framtíðar litið sem aftur eykur samfelluna í námsferli nemenda.  

skrifað 26. NóV. 2021.