1. Forsíða
  2. Áhersla lögð á málþroska og læsi leikskólabarna í Mosfellsbæ

Áhersla lögð á málþroska og læsi leikskólabarna í Mosfellsbæ

Sveitarfélagið Mosfellsbær hefur gert samstarfssamning við Menntamálastofnun um Snemmtæka íhlutun með áherslu á málþroska og læsi. Markmiðið með samstarfinu er að vinna markvisst að góðum málþroska   barna í leikskólum bæjarins, og undirbúa þau vel undir lestrarnám í grunnskóla. Með slíkri vinnu má koma í veg fyrir lestrarerfiðleika við byrjun lestrarnáms, sem leggur grunninn að öllu námi.

Haustið 2015 gerðu mennta- og menningarmálaráðuneytið og sveitarfélög í landinu með sér svokallaðan Þjóðarsáttmála um læsi. Markmið sáttmálans var að tryggja, að öll börn gætu við lok grunnskóla lesið sér til gagns. Samstarf Menntamálastofnunar og Mosfellsbæjar tekur mið af því og gengur út á að auka þekkingu og hæfni starfsfólks leikskóla til að beita aðferðum snemmtækrar íhlutunar til að efla málþroska og læsi. Verkefnið sem hefur verið þróað af Ásthildi Bj. Snorradóttur byggir á innleiðingu snemmtækrar íhlutunar í leikskóla og mun hún stýra innleiðingunni ásamt Menntamálastofnun. Markmiðið er að öll börn í leikskólum Mosfellsbæjar nái góðum árangri hvað varðar mál, tal og boðskipti og undirbúning fyrir frekara lestrarnám.

Verkefninu var formlega ýtt úr vör með fundi sérfræðinga og tengiliða leikskóla í Mosfellsbæ, Ásthildi og Menntamálastofnunar á dögunum. Í lok fundar skrifuðu  Arnór Guðmundsson forstjóri Menntamálastofnunar og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar undir samstarfssamninginn, sem gildi í eitt ár.

 

 

skrifað 05. NóV. 2018.