1. Forsíða
  2. Áhugavert málþing um myndskreytingar í námsbókum

Áhugavert málþing um myndskreytingar í námsbókum

Málþingið Mál í myndum var haldið fimmtudaginn 21. febrúar sl. í Bókasafni Kópavogs þar sem fjallað var um myndir og tilgang þeirra í námsefni. 

Frummælendur á málþinginu voru Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ, Ingimar Ólafsson Waage, aðjúnkt við Listaháskóla Íslands og Kristín Ragna Gunnarsdóttir, teiknari og rithöfundur.

Kristín Ragna Gunnarsdóttir fjallaði um mátt myndlýsinga og mikilvægi myndmáls í námsefni. Um það hvernig myndir geti vakið frekari áhuga á lestri og hve mikilvægt það sé að myndskreyta meira fyrir unglinga.

Í erindi Ingimars Ólafssonar Waage kom fram hvernig myndir í kennslubókum feli í sér hið óyrta; hvernig viðtekin viðhorf samfélagsins og væntingar þess til nemenda birtist í myndum – ekki síst í ljósi spurningarinnar um hvernig lífi sé æskilegt að lifa. Þá sagði hann að mennta þurfi kennara frekar í myndlæsi og það gæti verið sterkur vinkill í endurmenntun kennara.

Ragnar Þór Pétursson ræddi um þann þráð sem myndskreytingar spunnu á leið hans frá nemanda til kennara. Hvernig ein mynd getur breytt viðhorfi lesandans og að án myndlæsis er ekki lesið til gagns.

Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir, sýningarstjóri hélt einnig stutta kynningu á þeim myndum sem settar voru upp á sýningunni Tíðarandi í teikningum en málþingið var haldið í tengslum við sýninguna.

          

          

          

          

          

 

skrifað 25. FEB. 2019.