1. Forsíða
  2. Ársskýrsla undanþágunefndar grunnskóla 2017-2018

Ársskýrsla undanþágunefndar grunnskóla 2017-2018

Ársskýrsla undanþágunefndar grunnskóla 2017-2018

Gefin hefur verið út ársskýrsla undanþágunefndar grunnskóla fyrir skólaárið 2017-2018.  Hlutverk nefndarinnar er að meta umsóknir skólastjóra um heimild til að lausráða starfsmann sem ekki hefur leyfi mennta- og menningarmálaráðherra til að nota starfsheitið grunnskólakennari.

Í skýrslunni kemur fram að á skólaárinu 2017-2018 voru teknar til afgreiðslu 434 umsóknir. Af þeim voru 383 umsóknir samþykktar en synjanir voru 51.

Umsóknum um undanþágur hefur fjölgað jafnt og þétt frá skólaárinu 2012-2013, en eru þó enn tæplega helmingur þess sem tíðkaðist fyrir skólaárið 2007-2008. Þegar skólaárið 2017-2018 er borið saman við skólaárið á undan er um 40,8% fjölgun umsókna milli ára að ræða. Af 383 samþykktum umsóknum fyrir skólaárið

2017-2018 voru umsóknir vegna kvenna 296 eða 77,3% og vegna karla 87 umsóknir eða 22,7%.

Langflestar samþykktar undanþágur eru vegna einstaklinga í menntunarflokki 10 eða 78,9% af heildarfjölda umsókna. Í þessum flokki eru einstaklingar með háskólagráðu í grunnskólakennarafræðum eða háskólagráðu í öðrum greinum. Af samþykktum umsóknum eru 58 einstaklingar með B.Ed. próf í grunnskólakennarafræðum og af þeim eru 34 í meistaranámi til kennsluréttinda.

Hlutfall einstaklinga sem fá undanþágu án þess að vera með starfsreynslu við kennslustörf hefur farið hækkandi nokkur síðustu ár og er nú ríflega helmingur samþykktra umsókna eða 54,3%. Flestir einstaklingar hafa fengið undanþágu til almennrar kennslu eða 48,3%.  Meirihluti umsókna eru vegna einstaklinga á aldursbilinu 31-40 ára eða 48,2%.

Bráðabirgðatölur fyrir skólaárið 2018-2019

Undanþágunefnd grunnskóla hefur afgreitt 556 umsóknir fyrir skólaárið 2018-2019. Af þeim voru 507 umsóknir samþykktar en synjanir voru 49.

Tekið skal fram að afgreiðsla umsókna er í gangi allt skólaárið þó svo að langflestar umsóknir berist yfir sumarmánuðina áður en starfsemi grunnskóla fer í gang á haustin. Nú þegar má sjá aukningu í samþykktum umsóknum eða 32,4%  þegar það sem af er skólaárinu 2018-2019 er borið saman við skólaárið á undan 2017-2018.

 

 

skrifað 30. NóV. 2018.