1. Forsíða
  2. Ársskýrsla undanþágunefndar grunnskóla 2019-2020

Ársskýrsla undanþágunefndar grunnskóla 2019-2020

Gefin hefur verið út ársskýrsla undanþágunefndar grunnskóla fyrir skólaárið 2019-2020.

Hlutverk nefndarinnar var að meta umsóknir skólastjóra um heimild til að lausráða starfsmenn sem ekki hafa leyfi mennta- og menningarmálaráðherra til að nota starfsheitið grunnskólakennari.

Í skýrslunni kemur fram að á skólaárinu 2019-2020 voru teknar til afgreiðslu 787 umsóknir. Af þeim voru 738 umsóknir samþykktar en 49 var synjað.

Umsóknum um undanþágur hefur fjölgað jafnt og þétt frá skólaárinu 2012-2013. Þegar skólaárið 2019-2020 er borið saman við skólaárið á undan er um að ræða 30% fjölgun umsókna og 33,9% fjölgun samþykktra umsókna. Af 738 samþykktum umsóknum fyrir skólaárið 2019-2020 voru 588 eða 79,7% umsókna vegna kvenna og 150 umsóknir eða 20,3% vegna karla. 

Flestar samþykktar undanþágur eru vegna einstaklinga í menntunarflokki 10 eða 31,6%. Í þessum flokki eru einstaklingar með háskólagráðu í grunnskólakennarafræðum (t.d. B.Ed.), leikskólakennarar, þroskaþjálfar o.fl., án fullnægjandi menntunar í uppeldis- og kennslufræðum. 

Hlutfall undanþága vegna einstaklinga með enga starfsreynslu við kennslu hefur hækkað nokkuð undanfarin ár. Þó hefur það lækkað nokkuð frá síðasta ári þegar það var rétt ríflega helmingur umsókna og er nú 42,1% af samþykktum umsóknum. Meirihluti umsókna er vegna einstaklinga á aldursbilinu 31-40 ára eða 41,7%.

 

skrifað 16. NóV. 2020.