1. Forsíða
  2. Bókablikk

Bókablikk

 

Innlit í væntanlegt námsefni

Tvisvar á ári, að vori og að hausti, stendur Menntamálastofnun fyrir útgáfudegi námsefnis. Í aðdraganda útgáfudags er væntanlegt námsefni kynnt á fésbókarsíðu Menntamálastofnunar undir yfirskriftinni Bókablikk. Þar má sjá umfjöllun og sýnishorn úr efninu.

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Fyrsta bókablikkið er bókin Hrafninn sem væntanleg er til útgáfu 31.október 2018 

Hrafninn tilheyrir lestrarbókaflokknum Milli himins og jarðar þar sem markmiðið er að vekja forvitni nemenda og virkja áhuga þeirra til lestrar. Í bókinni má meðal annars fræðast um líf hrafna á Íslandi, hvernig þeir búa sér til hreiður, afla fæðu og verjast óvinum. Bókin er prýdd teikningum og ljósmyndum sem styðja vel við textann. Málsgreinar eru stuttar og texti brotinn upp með lestrarbilum. Textinn miðast við börn á yngsta stigi sem hafa náð undirstöðuatriðum lestrar en eldri nemendur gætu einnig haft ánægju af bókinni. Neðst á hverri blaðsíðu eru spurningar úr efninu þar sem reynir á ályktun, staðreyndir og orðskilning. Auk þess er á hverri opnu spurning sem vekja á forvitni lesandans og leiða hann í gegnum bókina en til að finna svarið er flett á næstu opnu. Aftast eru verkefni sem tengjast efni bókarinnar og orðanotkun. Rafbók og hljóðbók fylgja.

Höfundur: Harpa Jónsdóttir
Myndskreytir: Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson

Hér er brot úr bókinni

skrifað 19. OKT. 2018.