Þú ert hér

Dagur læsis og Bókasafnsdagurinn

Alþjóðlegur dagur læsis er haldinn 8. september ár hvert og munu bókasöfnin í landinu halda Bókasafnsdaginn hátíðlegan þann sama dag.

Nú á haustmánuðum eru komin tvö ár frá því að öll sveitarfélögin í landinu undirrituðu Þjóðarsáttmála um læsi og eru flest þeirra komin vel á veg í vinnu sinni að eflingu læsis. Með undirskriftinni tóku sveitarfélögin  þá ábyrgð sér á hendur að vinna að því, með öllum tiltækum ráðum, að efla læsi. Einn þáttur þess er að efla hlutverk bókasafna en starfsemi þeirra er mikilvægur hlekkur í læsisuppeldi barna.

Í ár er haldið upp á Bókasafnsdaginn í sjöunda inn. Hver Bókasafnsdagur hefur sitt þema og í ár er dagurinn tileinkaður lýðræði og hlutverki bókasafna í lýðræðissamfélögum.

Yfirskrift dagsins nú er því “Lestur er bestur - fyrir lýðræði”.

Tilgangurinn með deginum er að vekja athygli á bókasöfnum landsins og mikilvægi þeirra fyrir samfélagið allt. Mörg bókasöfn eru með ýmsar uppákomur í tilefni dagsins sem vert er að vekja athygli á.

Við hvetjum alla til að heimsækja bókasöfnin og njóta þess sem í boði er.

Við vekjum sérstaka athygli á því að 18 og yngri hafa frían aðgang að bókasöfnum.

skrifað 08. SEP. 2017.