1. Forsíða
  2. Dagur stærðfræðinnar 2. febrúar

Dagur stærðfræðinnar 2. febrúar

Föstudaginn 2. febrúar er dagur stærðfræðinnar. Menntamálastofnun hefur látið útbúa verkefni í tengslum við þema dagsins stærðfræði í bókmenntum.

Í tengslum við dag stærðfræðinnar 2. febrúar 2018 sem ber yfirheitið stærðfræði í bókmenntum fengum við til liðs við okkur Kristínu Ragnarsdóttur, grunnskólakennara. Kristína hefur tekið saman umræðupunkta á stærðfræðilegum nótum ásamt stærðfræðitengdum verkefnum við tvær bækur sem Menntamálastofnun gefur út. Bækurnar eru Danski draugurinn eftir Þórdísi Gísladóttur og Tunglið eftir Hörpu Jónsdóttur.

Umræðupunkta og verkefnasafn má nálgast í Stærðfræðisarpinum á vef Menntamálastofnunar

Danski draugurinn hentar nemendum á miðstigi. Hægt er að velja einn kafla í senn, lesa hann fyrir nemendur og eiga umræður við þá um stærðfræðilegar vangaveltur í textanum. Hugmyndum að umræðuefni er fylgt eftir blaðsíðu fyrir blaðsíðu.

Verkefnin sem fylgja Danska draugnum eru níu talsins. Verkefnasafnið er fjölbreytt, framandi og fræðandi.

Tunglið hentar nemendum á yngsta stigi. Hugmyndum að umræðuefni er fylgt eftir blaðsíðu fyrir blaðsíðu. Hægt er að lesa söguna og velja blaðsíður eða opnur til þess að staldra við og ræða um stærðfræðina í textanum.

Verkefnin sem fylgja Tunglinu eru fjórtán talsins. Það má með sanni segja að þau séu töfrandi, tilraunakennd og tæknileg.

Smellið hér til að komast í Stærðfræðisarpinn sem hýsir verkefnin á degi stærðfræðinnar 2018.

Góða skemmtun á degi stærðfræðinnar.

 

skrifað 02. FEB. 2018.