1. Forsíða
  2. Ég þori, get og vil - örnámskeið í skapandi skrifum

Ég þori, get og vil - örnámskeið í skapandi skrifum

Allir geta skapað – en of fáir leyfa sér það fyrir alvöru. Sífellt blasir betur við að hægt er að vekja áhuga nemenda á tungumálinu með því að efla þá í ritun þar sem áhersla er lögð á leik og sköpun með tungumálið á forsendum nemenda. Sá sem finnur fyrir eigin styrk í tungumálinu öðlast sjálfkrafa áhuga á öðrum sviðum þess eins og lestri, málfræði, orðaforða og réttri stafsetningu.

Menntamálastofnun, í samstarfi við fjölmarga aðila á sviði bókmennta og menningar, fer nú af stað með starfsþróunarverkefni í ritunarkennslu fyrir áhugasama kennara um land allt. Haustið 2018 verður þremur skólum boðin þátttaka í þriggja vikna tilraunanámskeiði og árið 2019 er síðan ætlunin að bjóða öðrum skólum til leiks.

Fyrsti liðurinn í verkefninu fer fram 23. maí næstkomandi, en þá verður boðið upp á örnámskeið í skapandi skrifum. Allir kennarar og skólastjórnendur eru boðnir velkomnir, aðgangur er ókeypis en farið er fram á skráningu þátttakenda.

Örnámskeiðið verður í höndum Davíðs Stefánssonar, sem hefur um árabil kennt skapandi skrif undir merkjum Sköpunarskólans og skrifað fjölmargar bækur um íslensku og bókmenntir og Karenar Rutar Gísladóttur, lektors á Menntavísindasviði. Markmiðið með námskeiðinu er að kynna fyrir kennurum þann mátt sem felst í þeirra eigin sköpunarmætti og benda á leiðir sem færar eru í starfi með nemendum.

Sjá viðburð á Facebook-síðu Menntamálastofnunar. 

skrifað 14. MAí. 2018.