Menntamálastofnun mun innan tíðar senda skólum nánari upplýsingar um skráningar skóla á prófadaga. Prófin í íslensku og ensku verða haldin á tilteknum dögum sem skólar geta valið á milli. Þá munu skólar einnig hafa val um á hvaða tíma dags prófin verða lögð fyrir. Velja þarf sama prófatímabil, vor eða haust, fyrir bæði prófin.
Tekið skal fram að vegna þessa fyrirkomulags á fyrirlögn prófa í íslensku og ensku verður að gera fyrirvara um samræmingu og samanburðargildi þeirra. Lögð verður áhersla á að veita endurgjöf til nemenda með hæfnieinkunn en ekki teknar saman heildarniðurstöður eða meðaltöl.
Ráðuneytið hefur birt meðfylgjandi breytingar á reglugerð nr. 73/2017 er varðar heimildir skólastjóra til að veita nemendum undanþágu frá því að þreyta samræmd könnunarpróf og úrvinnslu prófanna. Ennfremur hefur ráðuneytið kynnt væntanlegar breytingar á reglugerð nr. 1150/2008 þar sem heimild til að taka mið af niðurstöðum samræmdra könnunarprófa við innritun nemenda í framhaldsskóla er felld á brott.
Vinnuhópur mennta- og menningarmálaráðherra um samræmd könnunarpróf verður skipaður á næstu dögum og mun hann gera tillögu að framtíðarstefnu um fyrirkomulag prófanna. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili niðurstöðum sínum til ráðherra fyrir árslok.