Eru kennarar í Evrópu vel launaðir? Hvaða horfur eru á launahækkunum þegar líður á feril kennara á Íslandi, borið saman við hin Norðurlöndin og við Evrópumeðaltal almennt? Hefur kaupmáttur kennara minnkað eða aukist á viðmiðunartímabilinu? Út er komin árleg samantekt á vegum Eurydice-samstarfsins, Teachers' and School Heads' Salaries and Allowances in Europe – 2019/20 um þetta efni með samanburði milli landa.
Niðurstöður sýna að mikill munur er á byrjunarlaunum kennara milli landa. Allar launatölur eru reiknaðar í evrum og endurspegla samningsbundin heildarlaun. Byrjunarlaun kennara í Evrópu á ársgrundvelli eru á bilinu 5000 € til 80.000 €. Hæstu launin eru í Danmörku, Lúxemborg, Sviss og í Liechtenstein.
Ísland tilheyrir hópi þjóða með næsthæstu árslaunin og raðar sér í hóp þjóða sem eru með laun á bilinu 30.000-40.000€. Í þeim hópi eru einnig Belgía, Írland, Spánn, Holland, Austurríki, Finnland, Svíþjóð og Noregur. Noregur er reyndar á mörkum tveggja bila því launin þar eru 30.000-49.000€.
Byrjunarlaun í Frakklandi, á Möltu, á Ítalíu og í Portúgal falla svo í næsta hóp með nokkuð lægri laun eða byrjunarlaun á bilinu 22.000-29.000€. Næst lægstu byrjunarlaun í Evrópu má svo finna í Tékklandi, Eistlandi, Grikklandi, Króatíu, Lettlandi, Litáen, Slóveníu, Slóvakíu (öll með undir 20.000€ á ári). Þjóðirnar Pólland, Ungverjaland, Rúmenía og Búlgaría eru svo með innan við 9000€ á ári í byrjunarlaun.
Við greininguna er stuðst við launatölur, kennslutíma, viðbótargreiðslur o.fl. Launatölurnar eru á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytisins en Kennarasamband Ísland kemur að gagnaöflun sem byggir á samkomulagi um framkvæmd gagnaöflunar. Athugið að tölur fyrir framhaldsskólastigið eru ekki samanburðarhæfar því ekki var búið að færa inn síðustu launahækkanir fyrir það skólastig þegar skýrslan var gerð.