1. Forsíða
  2. Eurydice-skýrsla um laun kennara og skólastjórnenda í Evrópu

Eurydice-skýrsla um laun kennara og skólastjórnenda í Evrópu

Eru kennarar í Evrópu vel launaðir? Hvaða horfur eru á launahækkunum þegar líður á feril kennara á Íslandi, borið saman við hin Norðurlöndin og við Evrópumeðaltal almennt? Hefur kaupmáttur kennara minnkað eða aukist á viðmiðunartímabilinu? Út er komin árleg samantekt á vegum Eurydice-samstarfsins, Teachers' and School Heads' Salaries and Allowances in Europe – 2019/20 um þetta efni með samanburði milli landa.

Niðurstöður sýna að mikill munur er á byrjunarlaunum kennara milli landa. Allar launatölur eru reiknaðar í evrum og endurspegla samningsbundin  heildarlaun. Byrjunarlaun kennara í Evrópu á ársgrundvelli eru á bilinu 5000 € til 80.000 €. Hæstu launin eru í Danmörku, Lúxemborg,  Sviss og í Liechtenstein.

Ísland tilheyrir hópi þjóða með næsthæstu árslaunin og raðar sér í hóp þjóða sem eru með laun á bilinu 30.000-40.000€. Í þeim hópi eru einnig Belgía, Írland, Spánn, Holland, Austurríki, Finnland, Svíþjóð og Noregur. Noregur er reyndar á mörkum tveggja bila því launin þar eru 30.000-49.000€.

Byrjunarlaun í Frakklandi, á Möltu, á Ítalíu og í Portúgal falla svo í næsta hóp með nokkuð lægri laun eða byrjunarlaun á bilinu 22.000-29.000€. Næst lægstu byrjunarlaun í Evrópu má svo finna í Tékklandi, Eistlandi, Grikklandi, Króatíu, Lettlandi, Litáen, Slóveníu, Slóvakíu (öll með undir 20.000€ á ári). Þjóðirnar Pólland, Ungverjaland, Rúmenía og Búlgaría eru svo með innan við 9000€ á ári í byrjunarlaun.

Við greininguna er stuðst við launatölur, kennslutíma, viðbótargreiðslur o.fl. Launatölurnar eru á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytisins en Kennarasamband Ísland kemur að gagnaöflun sem byggir á samkomulagi um framkvæmd gagnaöflunar. Athugið að tölur fyrir framhaldsskólastigið eru ekki samanburðarhæfar því ekki var búið að færa inn síðustu launahækkanir fyrir það skólastig þegar skýrslan var gerð.

skrifað 01. NóV. 2021.