1. Forsíða
  2. Eykur áhuga barna á bóklestri og ritun

Eykur áhuga barna á bóklestri og ritun

Menntamálastofnun og Bergrún Íris Sævarsdóttir, rithöfundur og teiknari, hafa skrifað undir samstarfssamning um námskeið í skapandi skrifum í skólum á Vesturlandi. 

Bergrún hefur sérstakt lag á að vinna með börnum á öllum aldri, hefur haldið fjölda námskeiða, flutt fyrirlestra, skrifað bækur og myndskreytt tugi bóka fyrir aðra höfunda.

Á námskeiðinu fer Bergrún með krökkunum í skemmtilegt ferðalag um ævintýraheima sagnagerðar og ritunar. Kafað er í hugmyndaleit, persónusköpun og hvernig beinagrind að sögu verður til. Bergrún sýnir hvernig teikningar og texti vinna saman, t.d. í metsölubók sinni Langelstur í bekknum, sem hefur tendrað lestraráhuga hjá börnum á öllum skólastigum. Að námskeiðinu loknu skilur hún eftir vandaðar æfingar sem kennarar geta nýtt í skólastarfinu, kjósi þeir svo. 

Tilgangur námskeiðsins er að auka áhuga barna á bóklestri og ritun, það er sniðið að nemendum á miðstigi, en börn á yngsta- og elsta stigi njóta einnig góðs af og eru velkomin með í fámennum skólum.

Námskeiðið er liður í Þjóðarsáttmála um læsi.

skrifað 09. OKT. 2018.