1. Forsíða
  2. Fagráð eineltismála – opnun upplýsingaveitu um eineltismál og ráðgjöf

Fagráð eineltismála – opnun upplýsingaveitu um eineltismál og ráðgjöf

Til að styðja betur við starf fagráðs eineltismála hefur Menntamálastofnun birt á vef sínum upplýsingar um eineltismál þar sem nemendur, foreldrar og fagfólk getur nálgast upplýsingar og góð ráð ásamt teiknimyndbandi um einelti. Vonast er til að upplýsingarnar geti nýst skólasamfélaginu til að auka vitund og þekkingu á eineltismálum með hag og vellíðan nemenda að leiðarljósi.

Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis og er umsýsla þess hjá Menntamálastofnun.

Hlutverk fagráðsins er að veita skólasamfélaginu stuðning vegna eineltismála með almennri ráðgjöf, leiðbeiningum og upplýsingagjöf. Hægt er að vísa eineltismálum til fagráðsins ef ekki tekst að finna fullnægjandi lausn á þeim innan skóla eða sveitarfélags eða vegna meints aðgerðaleysis sömu aðila. Skal þá fagráðið veita ráðgefandi álit á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem því berast.

Öll mál sem send eru til fagráðsins eru skoðuð og metin og síðan tekin fyrir í fagráði að uppfylltum skilyrðum um málsmeðferð. Fagráðið tekur á málum nemenda í grunn- og framhaldsskólum og til þess geta leitað nemendur, foreldrar/forráðamenn, starfsfólk skóla og aðrir sem starfa með börnum í starfi sem hefur stoð í grunnskólalögum.

Nánari upplýsingar um fagráðið og upplýsingasíðuna má finna á vef Menntamálastofnunar.

skrifað 03. MAí. 2020.