1. Forsíða
  2. Fyrirlögn samræmds könnunarprófs í stærðfræði gekk vel

Fyrirlögn samræmds könnunarprófs í stærðfræði gekk vel

Fyrirlögn samræmds könnunarprófs í stærðfræði hefur gengið vel. Í flestum grunnskólum hófst próftaka á tímabilinu átta til níu í morgun en nemendur hefja próftöku allt fram til klukkan ellefu.  Alls þreyta um 4.300 nemendur prófið. Klukkan ellefu voru 700 nemendur að þreyta prófið en 2.900 höfðu þá lokið því.

Fulltrúar þjónustuaðila prófakerfisins voru með sérstaka vakt vegna fyrirlagnarinnar og sáu til þess að tölvuþjónar réðu við álagið. Þær ráðstafanir dugðu til þannig að ekki komu upp samskonar vandamál og í gær sem urðu til þess að hætta varð fyrirlögn samræmds prófs í íslensku. Í nokkrum skólum komu upp einstaka tæknileg vandamál sem starfsmenn Menntamálastofnunar hafa unnið að lausn á í samstarfi við skólana.

Menntamálastofnun vill þakka nemendum, kennurum og skólastjórnendum þann skilning og þolinmæði sem þeir hafa sýnt vegna vandamála við fyrirlögn prófanna í gær. Farið verður yfir öll tæknileg atriði prófakerfisins með þjónustuaðila þess og lögð áhersla á að íslenskir grunnskólar fái sem besta þjónustu.

Á fundi forstjóra Menntamálastofnunar með mennta- og menningarmálaráðherra í gær var ákveðið að ráðuneytið myndi boða fulltrúa skólastjóra, kennara, nemenda, foreldra og sveitarfélaga til fundar þar sem farið verður yfir stöðuna eftir íslenskuprófið. Í framhaldinu verður tekin ákvörðun um hvort íslenskupróf verður lagt fyrir að nýju fyrir þá nemendur sem ekki náðu að ljúka því eða prófið fellt niður.

skrifað 08. MAR. 2018.