1. Forsíða
  2. Gjafapakki til leikskólanna

Gjafapakki til leikskólanna

Í dag afhenti Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra Þóru Jónu Jónatansdóttur leikskólastjóra Geislabaugs í Reykjavík fyrsta námsefnispakkann sem Menntamálastofnun, í samstarfi við Lions, ætlar að færa öllum leikskólum landsins.

Í pakkanum er að finna spjöld með bókstöfum sem hægt er að nota á fjölbreyttan hátt, einnig veggspjöld með bók- og tölustöfum sem hægt er að hafa sýnilegt í umhverfinu, hreyfispil, tónlistarleiki og léttlestrarbækur.

Af þessu tilefni ræddi Lilja um mikilvægi lesturs og þess að byrja strax frá unga aldri að byggja góðan grunn að lestri barna. Guðrún Björt Yngvadóttir alþjóðaforseti Lions tók einnig þátt í athöfninni en hreyfingin hefur beitt sér fyrir eflingu læsis víða um heim. Börnin í leikskólanum Geislabaugi sungu fyrir gesti.

Fulltrúar Lions-hreyfingarinnar munu sjá um dreifingu á námsefninu og heimsækja alla leikskóla landsins á næstu vikum og afhenda gjafapakkann.

Afhending námsefnisins er liður í Þjóðarsáttmála um læsi og er það von Menntamálastofnunar að það muni nýtast vel til eflingar máls og læsis í því fjölbreytta starfi sem fram fer í leikskólum landsins.

skrifað 23. áGú. 2018.