1. Forsíða
  2. Góð mæting á opið hús og örkynningar

Góð mæting á opið hús og örkynningar

Miðvikudaginn 16. maí bauð Menntamálastofnun fjölda kennara á opið hús og örkynningar auk þess sem sett var upp sýning á námsefni stofnunarinnar. 

Það að bjóða kennurum í heimsókn kemur í framhaldi af því að starfsfólk stofnunarinnar hefur heimsótt núna á vormisseri 36 grunnskóla víða um land með það að markmiði að hitta kennara og starfsfólk skólanna til að mynda betri tengsl og eiga samtal um það starf sem bæði Menntamálastofnun sinnir sem og skólarnir.

Kennarar hafa bent á skort á endurmenntun hvað varðar námsefni og var því tilvalið að bregðast við með því að bjóða upp á örkynningar á námsefni fyrir yngsta, miðstig og unglingastig í dönsku, íslensku, stærðfræði, tónmennt og læsisverkefni Menntamálastofnunar. 

Þessum örkynningum var mjög vel tekið og mikillar ánægju gætti meðal þeirra rúmlega 80 manns sem mættu og fengu fræðslu um ofangreint námsefni. Að mati viðstaddra, bæði starfsfólks Menntamálastofnunar sem og kennara, þá eru þetta mikilvægar heimsóknir og bæði gaman og ánægjulegt að fara út í skólana og fá kennara í heimsókn í Menntamálastofnun.

Fyrirhugað er að halda reglulega örkynningar um námsefni á næstu misserum. 

          

          

          

               

 

skrifað 17. MAí. 2018.