Opnað hefur verið fyrir skráningu í verkefnið Göngum í skólann sem hefst 6. september og lýkur formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum 4. október.
Verkefninu er æltað að hvetja nemendur, foreldra og starfsmenn skóla til að ganga, hjóla eða ferðast á annan virkan hátt til og frá skóla. Á síðu verkefnisins segir að einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi sé að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup og hjólabretti. Ávinningur sé ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða.
Hægt verður að skrá sig til leiks á meðan verkefninu stendur.
Bakhjarlar verkefnisins eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Samgöngustofa, Ríkislögreglustjóri, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Embætti landlæknis og landssamtökin Heimili og skóli.