1. Forsíða
  2. Greining óháðs aðila á framkvæmd samræmdra könnunarprófa

Greining óháðs aðila á framkvæmd samræmdra könnunarprófa

Í kjölfar þess að upp komu alvarleg vandamál við framkvæmd samræmdra könnunarprófa í 9. bekk dagana 7. til 9. mars síðastliðinn fékk Menntamálastofnun óháðan aðila til að greina framkvæmd prófanna. Skýrsla með niðurstöðum greiningarinnar er nú aðgengileg.

Á fyrsta og þriðja próftökudegi í mars sl. komu upp vandamál við framkvæmdina sem urðu til þess að um helmingur nemenda gat ekki þreytt prófin eða gerði það við óviðunandi aðstæður.

Í skýrslunni kemur fram að meginástæðan fyrir vandamálum við fyrirlögn prófanna var hugbúnaðarvilla í prófakerfi Assessment Systems. Þessi villa varð til þess að gerð var fyrirspurn í gagnagrunn kerfisins sem leitaði í um 8.000-12.000 línum í grunninum fyrir hverja innskráningu. Það er fátt sem Menntamálastofnun hefði getað gert til að koma í veg fyrir villuna.

Í skýrslunni kom einnig fram að það er ýmislegt í ferlum og vinnubrögðum Menntamálastofnunar sem má bæta hvað varðar fyrirlögn samræmdra könnunarprófa. Til dæmis komu ábendingar um að Menntamálastofnun ætti að gera ítarlegri kröfur til þjónustuaðilans um álagspróf, efla hugbúnaðarþekkingu innan stofnunarinnar og setja ítarlegri ferla um framkvæmdina.

Í kjölfar niðurstöðu úttektarinnar hefur verið farið vandlega yfir ferla við undirbúning og framkvæmd samræmdra könnunarprófa og viðbragðsáætlanir endurbættar. Þá voru fengnir hugbúnaðarsérfræðingar til að vera Menntamálastofnun til aðstoðar við fyrirlögn prófanna og ferli framkvæmdarinnar bætt.

skrifað 09. MAí. 2018.