1. Forsíða
  2. Helmingur telur verknám henta sér betur

Helmingur telur verknám henta sér betur

Um helmingur nemenda í framhaldsskóla telur að nám í verklegum greinum henti sér betur en bóknám

Greiningarsvið Menntamálastofnunar hefur í samstarfi við Rannsóknir & greiningu unnið stutta samantekt er varðar nám nemenda og námsval. Greiningin byggir á gögnum úr könnuninni Ungt fólk - framhaldsskólar sem lögð er reglulega fyrir í 31 framhaldsskóla landsins.

Í greiningunni er vakin athygli á því að um helmingur nemenda (49%), sem svöruðu könnuninni árið 2016, telur að nám í verklegum greinum henti þeim betur en bóknám. Einnig kemur fram að meirihluti nemenda myndi vilja að það væri meira frjálst val á hverri námsbraut eða um 77% árið 2013 og 75% árið 2016. Um 66% nemenda hafa árið 2016 áhuga á að taka fleiri verklega áfanga og 39% nemenda hafa áhuga á að taka fleiri listgreinaáfanga, sjá mynd 1.

Mynd 1. Hversu vel eiga eftirfarandi fullyrðingar við um þig? Hlutfall nemenda sem segir að fullyrðingarnar eigi mjög eða fremur vel við um sig, árin 2013 og 2016.

Ofangreind viðhorf nemenda til mismunandi náms voru greind eftir því hverskonar nám nemendur töldu lýsa námsbraut sinni best. Niðurstöður leiða eftirfarandi í ljós:

  • Hátt hlutfall nemenda, óháð námsbraut sem þeir eru á, hefur áhuga á að taka fleiri verklega áfanga. Athygli vekur að 60% nemenda sem segjast vera í bóknámi til stúdentsprófs og 69% þeirra sem eru í námi á framhaldsskólabraut telja að fullyrðingin ég hef áhuga á að taka fleiri verklega áfanga eigi mjög eða fremur vel við sig.
  • Þá telur einnig töluverður hópur nemenda í öðru námi en listnámi að fullyrðingin ég hef áhuga á að taka fleiri listgreinaáfanga eigi mjög eða fremur vel við sig. Um 38% nemenda í bóknámi til stúdentsprófs telur svo vera. Um 29% nemenda í verknámi til starfsréttinda, 33% í verknámi til stúdentsprófs og 42% nemenda í námi á framhaldsskólabraut eru sama sinnis.
  • Þá vekur einnig athygli að um 35% nemenda í bóknámi til stúdentsprófs telja að fullyrðingin ég tel að nám í verklegum greinum henti mér betur en bóknám eigi mjög eða fremur vel við sig. Þetta vekur athygli þar sem að meirihluti nemenda (70%) í könnuninni telur að bóknám til stúdentsprófs lýsi námsbraut sinni best. Meirihluti nemenda (70%) í námi á framhaldsskólabraut er sama sinnis en lágt hlutfall eða um 3% nemenda segjast vera skráð í það nám.
  • Hátt hlutfall nemenda, óháð því á hvaða námsbraut þeir eru, telur að fullyrðingin ég vildi að það væri meira frjálst val á hverri námsbraut eigi mjög eða fremur vel við sig eða á bilinu 74% til 86% eftir því hvaða nám á í hlut.

Samantektina í heild sinn má finna hér og skýrsluna Ungt fólk 2016, framhaldsskólar hér.

skrifað 24. APR. 2018.