1. Forsíða
  2. Hlaðvörp aðgengileg á Fræðslugáttinni

Hlaðvörp aðgengileg á Fræðslugáttinni

Inn á Fræðslugáttina eru komin áhugaverð og fróðleg hlaðvörp fyrir ungmenni sem geta nýst vel í kennslu:

Hlaðvarpið um Harry Potter í Versló býður upp á pælingar um bækurnar og kvikmyndirnar í samhengi við ólíkar áherslur í kennslufræði og ætti þannig að höfða bæði til áhugamanna um galdraheima og líka þeirra sem leita eftir hugmyndum um fjölbreyttar leiðir til að kenna bókmenntir.

Í Vísindavarpi Ævars eru áhugaverðir og fróðlegir þættir sem tengjast t.d. samfélagsfræði, sögu, náttúrufræði, landafræði o.fl. Til dæmis eru þættir sem fjalla um hvali, Þingvelli, sólkerfið, landnám, eldgos og þjóðsögur.

Hlustaðu nú eru þættir með margbreytilegu þema. Fjallað er um sannar og skáldaðar sögur, íþróttir, leiki, tónlist o.fl. Þættir um sinfóníuhljómsveit, raftónlist, rokktónlist, popptónlist, djasstónlist tengjast t.d. hæfniviðmiðum tónmenntar við lok 10. bekkjar.

Í Flimtan og fáryrði er m.a. fjallað um Njáls sögu (þættir 11, 13, 15, 20, 21), Egils sögu (þættir 3 og 21), Gísla sögu (þáttur 2), Laxdælu (þættir 5, 17, 18) og Íslendingaþætti (þættir 6 og 9). Hrafnkels saga og Eyrbyggja eru einnig talsvert til umræðu og allmargir þættir fjalla um miðaldamenningu almennt. Þættirnir tengjast vel íslensku og samfélagsgreinum.

Í ljósi krakkasögunnar eru þættir um krakka/unglinga sem hafa haft áhrif á söguna með einum eða öðrum hætti. Umfjöllunarefni tengjast t.d. jafnrétti (þáttur um Malölu Yousafzai og um Ruby Bridges), umhverfismál (Greta Thunberg). Þættirnir falla t.d. vel að grunnþáttum menntunar (lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sjálfbærni) og eins hæfniviðmiðum í samfélagsgreinum, íslensku og tónmennt. Ingibjörg Fríða Helgadóttir hefur umsjón með hlaðvarpinu.

Þá eru upplýsingar um forritið Anchor en þar er er hægt að taka upp þátt, klippa hann til og gefa öðrum aðgengi til þess að hlusta.

Hljóðvörpin eru undir Annað efni á Fræðslugáttinni.

skrifað 21. SEP. 2021.