1. Forsíða
  2. Hundruðir sækja hluta starfsnáms erlendis

Hundruðir sækja hluta starfsnáms erlendis

Hundruð íslenskra nemenda í starfsnámi hafa á undanförnum árum sótt verklegt nám að hluta til í öðrum Evrópuríkjum. Þar gegna lykilhlutverki styrkir Erasmus+ áætlunar Evrópusambandsins en í krafti hennar fóru nemendur í starfsnámi og kennarar alls yfir eitt þúsund ferðir erlendis í þessum erindagjörðum á árunum 2014-2018. Algengast er að um fjögra vikna dvöl sé að ræða, sem er þá metin til eininga í viðkomandi skólum hér á landi. Flestar ferðirnar hafa verið farnar til Danmerkur og Bretlands en einnig margar til hinna Norðurlandanna, Þýskalands, Spánar og víðar.

Meirihluti þeirra framhaldsskóla sem bjóða upp á starfsnám hefur tekið þátt í þessum verkefnum og samkvæmt upplýsingum Menntamálastofnunar ríkir mikil ánægja meðal nemenda og kennara með þessi tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn, kynnast því hvernig ýmis störf eru unnin erlendis, sækja aukna sérhæfingu o.s.frv. Þátttaka skólanna í slíku samstarfi útheimtir hins vegar mikla vinnu af þeirra hálfu við undirbúning, skipulag, tengslamyndun, umsýslu o.fl. Erasmus+ áætlunin styrkir slíka umsýslu að takmörkuðu leyti en skólarnir bera kostnaðinn að mestu sjálfir.

Rannís gegnir hlutverki landskrifstofu Erasmus+ áætlunarinnar hérlendis. Upplýsingar um úthlutanir og ferðir má nálgast  hér á vef Rannís.

skrifað 05. JúN. 2019.