1. Forsíða
  2. Hvatningarverðlaun dags gegn einelti 2017

Hvatningarverðlaun dags gegn einelti 2017

Vináttuverkefni Barnaheilla hlaut hvatningarverðlaun dags gegn eineltis 2017. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti verðlaunin við athöfn sem haldin var í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti í dag og var það Kolbrún Baldursdóttir, formaður Barnaheilla sem tók við þeim.

Vináttuverkefni Barnaheilla er forvarnarverkefni gegn einelti fyrir leikskóla og fyrstu bekki grunnskóla. Verkefnið Vinátta er danskt að uppruna og nefnist Fri for mobberi á frummálinu. Um er að ræða námsefni sem gefið hefur verið út og ætlað er leikskólum og 1. – 3. bekk grunnskóla. Frá árinu 2016 hefur verkefnið staðið öllum leikskólum á Íslandi til boða. Í dag eru um 100 leikskólar þátttakendur í verkefninu. Nú hafa Barnaheill einnig gefið út efni sem ætlað er 1. – 3. bekk grunnskóla og verður unnið með það í tilraunaskyni í 14 grunnskólum í sex sveitarfélögum á yfirstandandi skólaári. Sjá nánar á vefsíðu Barnaheilla.

Verkefnið Vinátta miðar að því að fyrirbyggja einelti með því að móta góðan skólabrag og vinna með styrkleika hvers og eins.  Áhersla er á gildi margbreytileikans, góð samskipti og jákvæð viðhorf til allra í hópnum. Þátttaka allra, barna, starfsfólks og foreldra er grundvöllur þess að vel til takist. Verkefnið Vinátta byggir á nýjustu rannsóknum. Hugmyndafræði þess endurspeglast í gildunum fjórum: umburðarlyndi, virðingu, umhyggju og hugrekki.

Viðurkenningin sem verkefnið Vinátta fékk er verðlaunagripur úr stáli og plexigleri eftir Björn Jóhannes Sighvatz og Karitas Sigurbjörgu Björnsdóttur. Verðlaunagripurinn var smíðaður við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra í samvinnu við Fab Lab Sauðárkróks. Höfundar lýsa verðlaunagripnum þannig: „Hann er hugsaður sem sterkur stálgrunnur sem fær tengingu við náttúru Íslands með tilvísun í stuðlabergið. Því öll þurfum við sterkan grunn til þess að vaxa og dafna. Hann hefur á yfirborðinu nokkur skammarstrik því börn eru að læra og þurfa að fá tækifæri til þess að gera mistök. Speglunin á yfirborðinu gefur til kynna að við þurfum að hugsa um alla í kringum okkur. Við þurfum einnig að geta speglað okkur í gjörðum og athöfnum annarra. Að leiðast er tákn trausts og virðingar.“

 

       

skrifað 08. NóV. 2017.