1. Forsíða
  2. Hvatningarverðlaun veitt á degi gegn einelti

Hvatningarverðlaun veitt á degi gegn einelti

Lilja Ósk Magnúsdóttir, verkefnastjóri forvarna- og félagsmála í Tækniskólanum, hlaut árleg hvatningarverðlaun samtakanna Heimili og skóli fyrir framlag sitt til eineltisforvarna á árlegum degi gegn einelti. Það voru forseti Íslands og mennta- og barnamálaráðherra sem afhentu verðlaunin við hátíðlega athöfn í Hólabrekkuskóla.

Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum velur verðlaunahafa af innsendum tilnefningum en verðlaunin eru veitt einstaklingi eða verkefni sem talinn er hafa unnið ötullega gegn einelti.

Dagur gegn einelti er haldinn hátíðlegur þann 8. nóvember ár hvert en á þessum degi eru jákvæð samskipti í fyrirrúmi og er skólasamfélagið hvatt til að taka höndum saman gegn einelti. Þá er tækifæri til að efna til umræðu, fræðslu og viðburða til að vinna gegn einelti, hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu. 

Starfsfólk Menntamálastofnunar óskar Lilju Ósk innilega til hamingju með verðlaunin.

skrifað 08. NóV. 2023.