1. Forsíða
  2. Innritun nýnema í framhaldsskóla fyrir haustönn 2017

Innritun nýnema í framhaldsskóla fyrir haustönn 2017

Alls sóttu 4.012 nemendur um skólavist að þessu sinni sem eru rétt tæplega 98,3% allra þeirra sem útskrifuðust úr grunnskóla nú í vor. Líkt og undanfarin ár gafst nemendum kostur á að sækja um tvo skóla. Eins og fram kemur á meðfylgjandi mynd fengu tæplega 88% umsækjenda skólavist í þeim skóla sem þeir völdu sér í fyrsta vali en til samanburðar má geta þess að á síðasta ári var hlutfall þessara nemenda 90%. Alls fengu 10% nemenda skólavist í þeim skóla sem þeir völdu sér í öðru vali en á haustönn 2016 var hlutfall þessara nemenda 9%. 

Alls 82 nemendur eða um 2% allra umsækjenda fengu ekki skólavist í þeim skólum sem þeir höfðu óskað eftir og sá Menntamálastofnun um að útvega þeim skólavist í þriðja skóla. Flestir þeir sem tilheyrðu þessum hóp uppfylltu ekki inntökuskilyrði í það nám sem þeir sóttu um. Til samanburðar má geta þess að á síðasta ári var fjöldi þessara nemenda 59.

Undanfarin ár hafa nokkrir skólar notið mikilla vinsælda hjá umsækjendum og var engin breyting á því í þessari innritun. Samkeppnin um laus pláss var því hörð og þurftu þeir skólar sem fengu hvað flestar umsóknir að vísa mörgum umsækjendum sínum frá. Verzlunarskóli Íslands, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, Kvennaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Hamrahlíð og Borgarholtsskóli fengu flestar umsóknir.

 Námsval nýnema

Gerð hefur verið gróf flokkun á námsvali 10. bekkinga þ.e. inn á hvaða námsbrautir nemendur innrituðust. Flestir nemendur sóttust eftir því að komast inn á bóknámsbrautir til stúdentsprófs eða 65% allra þeirra sem sóttu um. Um 12% nemenda innrituðust á verk- eða starfsnámsbrautir og 5% umsækjenda innrituðust á listnámsbrautir. Nærri 18% nemenda innrituðust á almenna námsbraut eða framhaldsskólabraut en þessar námsbrautir eru einkum ætlaðar þeim sem ekki uppfylla inntökuskilyrði til að komast beint inn á aðrar námsbrautir.

 

skrifað 20. JúN. 2017.