1. Forsíða
  2. Jákvæðar niðurstöður og góð þátttaka

Jákvæðar niðurstöður og góð þátttaka

Út er komin skýrsla um niðurstöður lesfimiprófa Lesferils frá janúar 2019. Skólaárið 2018-2019 er þriðja skólaárið sem prófin eru lögð fyrir og hefur þátttaka aukist mikið milli ára.

Í skýrslunni má meðal annars sjá að allir árgangar lesa að meðaltali mun fleiri orð um mitt skólaár en viðmið 1 gera ráð fyrir að vori. Með markvissri þjálfun fram að vori ættu allir árgangar að ná að lesa að meðaltali þann orðafjölda sem viðmið 2 gera ráð fyrir.

Ánægjulegt er að sjá hve mikil aukning er meðal þeirra sem nota prófin en um og yfir 90 prósent nemenda í flestum árgöngum tóku þau, miðað við um 70 - 80 prósent nemenda í september 2017.

Líkt og fram kemur í skýrslunni er Lesfimi færni sem byggir á lestrarnákvæmni, leshraða (sjálfvirkri umskráningu) og góðu lestrarlagi en allt er þetta meðal undirstöðuþátta fyrir lesskilning. Í lesfimiprófunum eru tveir fyrstnefndu þættirnir metnir, þ.e. lestrarnákvæmni og leshraði en matskvarði fyrir síðastnefnda þáttinn, lestrarlagið, fylgir einnig.

Mikilvægt er að horfa á umbætur í menntun og lestrarkunnáttu sem samfelluverkefni til langs tíma og byggja upp nauðsynlegar grunnstoðir til þess. Menntamálastofnun mun auka stuðning sinn á þessu sviði m.a. með sérstökum ritunarvef og lesferlisvef. Þeir eru fyrst og fremst hugsaðir sem verkfærakista fyrir kennara og munu innihalda gagnreyndar aðferðir sem nota má til að efla flesta þætti læsis í kennslu.

Við höfum öll sameiginlega sýn og markmið að efla læsi og menntun í landinu. Niðurstöður lesfimiprófa nú gefa jákvæðar vísbendingar um það mikla starf sem hefur verið unnið. Mikilvægt er að skólar, foreldrar, sveitarfélögin og samfélagið allt, taki höndum saman og haldi áfram af sama krafti að efla læsi og hjá börnum.

Nánar má lesa um niðurstöður lesfimiprófa í skýrslu Menntamálastofnunar.

skrifað 29. MAR. 2019.